Enn gæti hrunið úr Reynisfjalli

20.08.2019 - 17:05
Mynd með færslu
Lögregla hefur lokað fjörunni sem er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna hér á landi. Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Veðurstofan sendi sérfræðing á vettvang í Reynisfjöru í dag vegna skriða sem hafa fallið þar í nótt og í gær. Stór skriða féll í fjöruna í nótt. Lögregla lét loka hluta fjörunnar í gær eftir grjóthrun. Það gæti hrunið áfram úr skriðusárinu.

Fyrstu athuganir benda til þess að skriðan sé svipuð að stærð og skriða sem féll þar árið 2005 og jafnvel aðeins stærri. Að sögn Jóns Kristins Helgasonar, sérfræðings á sviði skriðufalla og hættumats hjá Veðurstofu Íslands, má búast við því að áfram hrynji úr skriðusárinu. „Það má alveg búast við að það haldi eitthvað áfram að hrynja úr skriðusárinu en við eigum eftir að fara yfir okkar gögn til þess að vega og meta aðstæður og vonandi vitum við meira á morgun.“

Móbergið á þessum stað orðið aumt

Jón segir að erfitt sé að segja til um það hvað valdi skriðuföllunum. „Þetta er náttúrulega móberg og móbergið er svolítið veðrað á þessum stað. Það getur oft verið frekar aumingjalegt móbergið og svo kemur bara kemur sá tími að það hrynur.“

Þannig að þetta er kannski ekkert óvænt? „Að mörgu leyti ekki. Það hefur alltaf verið með reglulegu millibili að hrynja úr Reynisfjallinu. Mestu ummerkin má reyndar sjá í austanverðu fjallinu, þar sem að má sjá urðir í flæðarmálinu en svo náttúrulega höfum við heyrt fréttir síðustu ár af því að hafi verið grjót og jafnvel einhverjar skriður að falla þarna á þessu svæði.“

Tveir slösuðust er grjót hrundi í gær

Karlmaður höfuðkúpubrotnaði og barn slasaðist minna þegar grjót hrundi úr berginu í gær. Reynisfjara er meðal fjölförnustu ferðamannastaða á landinu og þangað fer dag hvern fjöldi ferðamanna, bæði á eigin vegum og í skipulögðum hópferðum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík / Birgir Þór - RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi