Enn fjölgar tilkynningum um heimilisofbeldi

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Heimilisofbeldismálum á borði lögreglunnar fjölgaði mikið eftir að verklagi var breytt á árunum 2013 til 2014. Málunum fjölgar enn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Sjöhundruð og sjö heimilisofbeldismál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. Árið 2018 voru málin 685. Tilkynningar um heimilisofbeldi á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 voru fjórum prósentum fleiri en að meðaltali síðustu þrjú árin á undan. 

Tilkynningum fjölgaði mikið eftir breytt verklag lögreglu

Ákveðið var að taka heimilisofbeldismál fastari tökum hjá lögreglunni á Suðurnesjum árið 2013 og næstu ár á eftir fjölgaði tilkynningum í því umdæmi um 100 prósent. Með nýju verklagi var ákveðið, meðal annars, að bæta rannsóknir á heimilisofbeldismálum með markvissari fyrstu viðbrögðum lögreglu, fækka ítrekunarbrotum, bæta tölfræðivinnslu, aðstoða þolendur og gerendur markvisst, nýta betur úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili og að ná fleiri málum í gegnum réttarvörslukerfið. Þá felur verklagið í sér að lögð er áhersla á að þolendur fari í læknisrannsókn og að félagsþjónusta sé kölluð til hvort sem börn eru á heimili eða ekki.

Þetta verklag var tekið upp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2014 og fjölgaði tilkynningum um heimilisofbeldi þar um 130 prósent í kjölfarið. Svipað verklag hefur nú verið tekið upp um nær allt land, að sögn Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, yfirlögfræðings hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hún segir að þessa miklu fjölgun mála sem rata á borð lögreglu megi skýra á nokkra vegu. Málin séu mun betur skráð nú en áður og það sé gert á samræmdan hátt um allt land. Þá hafi fólk meiri tiltrú á kerfinu og ákveði því frekar að leita hjálpar nú en áður. 

Umræðan hefur áhrif

Umræðan um heimilisofbeldi hefur þau áhrif að fleiri leita til lögreglu eftir hjálp við að losna úr ofbeldissamböndum, að sögn Öldu Hrannar. „Alltaf þegar heimilisofbeldi er mikið í umræðunni þá eru málin fleiri.“ Í umfjöllun um heimilisofbeldi fái fólk upplýsingar um það hvert það geti leitað. 

Skelfilegar afleiðingar fyrir þolendur

Alda Hrönn segir nauðsynlegt að fólk geri sér grein fyrir því hve alvarlegar afleiðingar heimilisofbeldis eru. „Bæði fyrir þolendur og líka þegar börn eru á heimilunum. Þau upplifa þessa vá og þennan vítahring sem ofbeldið er þó að þau jafnvel verði aldrei vitni að ofbeldinu sjálfu. Afleiðingarnar eru hrikalegar og jafn miklar og ef börnin hefðu sjálf orðið fyrir ofbeldi.“ Það að alast upp við þessar aðstæður hafi skelfilegar afleiðingar á börn til framtíðar. 

Mynd með færslu
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur hjá Lögreglunni á Suðurnesjum. Mynd: RÚV

Í samantekt Kvennaathvarfsins um starfsemina í fyrra kom fram að aldrei hafi fleiri konur nefnt ofbeldi gegn börnum sem ástæðu komu í athvarfið. Í svörum þeirra kvenna sem leituðu í athvarfið í fyrra, kom fram að það búa alls 349 börn á ofbeldisheimilunum sem þær koma af. Aðeins 27 prósent barnanna höfðu fengið einhverja aðstoð vegna ofbeldisins sem þau bjuggu við en 44 prósent kvennanna sögðu að barnavernd hefði verið tilkynnt um ofbeldið.

Stundum nóg að lögregla tali við gerendur

Allur gangur er á því hvernig gerendur bregðast við því þegar lögregla hefur afskipti af heimilisofbeldi. Stundum er nóg að gera samning við ofbeldisfólk um að nálgast ekki þolendur. „Sem betur fer virkar það oft. Það má segja að það sé annað hvort eða þegar kemur að þessu. Annað hvort lætur fólk segjast eða alls ekki,“ segir Alda Hrönn um vægari úrræðin sem lögregla beitir gegn ítrekuðu ofbeldi og truflun á heimilisfriði.

Þegar málið sé komið til lögreglu gerist það oft að fólk áttar sig á því að það hafi gengið allt of langt. Í öðrum tilfellum haldi fólk áfram uppteknum hætti, þrátt fyrir afskipti lögreglu og þá þurfi að grípa til harðari úrræða, eins og nálgunarbanns og brottvísunar af heimili.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons - http://www.marines.mil/unit/29pa

Lögregla getur úrskurðað um nálgunarbann ef sá sem ofbeldinu beitir samþykkir að sæta slíku, samkvæmt nýlegum lagabreytingum. Ef gerandinn samþykkir það ekki, þá geta dómstólar úrskurðað um nálgunarbönn og brottvísun af heimili.

Brýnt að setja lög um eltihrella og umsáturseinelti

Umsáturseinelti er ein birtingarmynd heimilisofbeldis. Með umsáturseinelti er átt við það þegar eltihrellir, oft fyrrverandi maki, áreitir aðra manneskju stöðugt, fylgist jafnvel með ferðum hennar, beitir hótunum og hrellir á annan hátt. Alda Hrönn segir að sárlega vanti sérákvæði um eltihrella í lög. Það sé hægt að taka á málum þeim tengdum þegar úrskurðað hafi verið um nálgunarbann, ef umsáturseineltið er ítrekað og alvarlegt og tengist broti í nánu sambandi.

Ef aðstæðurnar eru ekki þannig geta málin verið lengi í ferli og umsáturseineltið haldið áfram á meðan með tilheyrandi vanlíðan og ótta fyrir þann sem fyrir því verður. Alda Hrönn segir að dómstólar hafi haft tilhneigingu til að úrskurða ekki um nálgunarbann nema eitthvað alvarlegra en röskun á friði hafi átt sér stað og því sé mikilvægt að fá ákvæði um úrræði gegn eltihrellum með skýrum hætti í lög svo hægt sé að grípa til aðgerða við þess konar ofbeldi á skjótan hátt.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi