Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Enn einni lotu viðræðna lokið

12.08.2019 - 08:28
U.S. special envoy to Afghanistan, Zalmay Khalilzad answers a question at a news conference in Kabul on Tuesday 7 October 2003. EPA PHOTO BY SAYED JAN SABAWOONEPA PHOTO/STR/SAYED JAN SABAWOON  EPA/SAYED JAN SABAWOON
Zalmay Khalilzad, erindreki Bandaríkjastjórnar. Mynd: EPA - STR
Í nótt lauk enn einni lotu viðræðna milli Bandaríkjamanna og Talibana um leiðir til að binda enda í stríðið í Afganistan og brottflutning bandarísks herliðs frá landinu. Orðrómur hefur verið á kreiki um að samkomulag sé í sjónmáli.

Talsmaður Talibana greindi frá því á Twitter í morgun að áttundu lotu viðræðna við Bandaríkjamenn væri lokið og sagði að samningamenn tækju sér hlé til að ráðfæra sig við yfirmenn sína um næstu skref. ­

Viðræður milli Bandaríkjamanna og Talibana hafa staðið í rúmt ár og hafa þær farið fram í Doha í Katar. Ekki er ljóst hvenær næsta lota viðræðna hefst, en Zalmay Khalilzad, erindreki Bandaríkjastjórnar, sagðist í gær vona að friður yrði í Afganistan þegar Eid al-Adha hátíðin, sem hófst í gær, yrði haldin á næsta ári.

Bandarískt herlið hefur verið í Afganistan í átján ár og eru þar enn um 14.000 bandarískir hermenn. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lagt áherslu á þeir verði kallaðir heim.

Þótt samkomulag náist milli Bandaríkjamanna og Talibana er friður ekki í höfn í Afganistan. Til þess þarf samþykki ráðamanna í Kabúl. Talibanar hafa til þessa neitað að ræða við stjórnina þar og segja hana leppstjórn Bandaríkjamanna.