Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enn að ráða fram úr afbókunum og draga saman seglin

12.03.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Heimaleigu segir að afbókanir hefi verið að hrannast inn í alla nótt að þegar sé verið að draga saman seglin að einhverju leiti.

Heimaleiga er með á annan tug fastráðins starfsfólks og sér um rekstur íbúða í skammtímaleigu. Sölvi Melax, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að enn sé verið að ráða fram úr afbókunum sem hafa hrannast inn frá því í gærkvöld og óráðið sé hve mikið tjónið er. Hann segir fyrirtæki þegar vera að grípa til aðgerða til að glíma við afleiðingarnar.

„Já, við erum að því. Við munum örugglega draga saman seglin að einhverju leiti. Við munum vonandi komast hjá uppsögnum á fólki en munum draga úr verktökum og minnka mögulega starfshlutfall og eitthvað þannig tímabundið,“ segir hann.

Óvíst með endurgreiðslurétt

Sölvi segir að bókunarsíður eins og AirBnB og Booking.com hafi undanfarið gengið langt farðandi rétt viðskiptavina sem koma frá áhættusvæðum til endurgreiðslu við afbókanir. Bandaríkin falla þó ekki undir þann hóp eins og er og því ekki víst hvort full endurgreiðsla fylgi þeim afbókunum.

Mikil óvissa til lengri tíma litið

Hann segir að aðgerðir ríkisstjórnar til að stemma stigu við samdrætti í efnahagslífinu mýki lendinguna og þar tiltekur hann sérstaklega frest á greiðslu á virðisaukaskatti og niðurfellingu gistináttaskatts. Enn sé þó tölutöluverð óvissa fyrir hendi, þar sem ekki er vitað hvort ástandið vari í þrjár vikur eða þrjá mánuði.

„Við höfum líka áhyggjur af ástandinu til lengri tíma. Fólk er lítið að bóka frí eða hugsa um hvað það ætlar að gera í sumar og svoleiðis og sumarið er náttúrulega mikilvægasti tíminn fyrir ferðaþjónustuna. Þetta er bar rosalegt högg fyrir fasteignaeigendur sem þurfa að standa undir föstum mánaðarlegum kostnaði þrátt fyrir mikinn samdrátt í tekjum.“