Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Engir tollar á kartöflusnakki

21.12.2015 - 12:01
Kartöfluflögur
 Mynd: Evan-Amos - Wilkimedia commons
Alþingi felldi niður tolla á innfluttu kartöflusnakki á lokadögum þingsins. Framkvæmdastjóri Iðnmarks sem framleiðir kartöflusnakk hér á landi íhugar að flytja starfsemi sína til Noregs, komast þannig á stærri markað og geta selt tollfrjálst til Íslands. Flutningsmaður tillögunnar segir ofurtollana sem fyrir voru hafa verið ósanngjarna.

 

Sigurjón Dagbjartsson er framkvæmdastjóri Iðnmarks sem framleiðir Stjörnusnakk. Hann segir að ákveðnir þingmenn hafi lagt áherslu á frelsi í tollum þvert á landamæri.

„Það sem aðallega fer í taugarnar á okkur er að ef að við ætluðum að flytja út snakk til Noregs þá þurfum við að greiða 585 krónur á kíló ef við ætluðum að selja þeim. Okkur finnst það mjög ósanngjarnt að íslensk framleiðsla geti ekki selt erlendis þegar að allar aðrar þjóðir geta selt til Íslands. Þetta kemur frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi og Hollandi og allar þessar þjóðir fá aðgang að okkar markaði en við ekki að þeirra.“

 

Breytingarnar koma til framkvæmda eftir eitt ár. Sigurjón segir innlenda framleiðendur nú velta fyrir sér þeim kostum sem séu í stöðunni.

„Það væri kannski möguleiki að flytja fyrirtækið til Noregs og hefja framleiðslu þar og senda til Íslands tollfrjálst. Ef að við myndum flyta okkar fyrirtæki erlendis þá erum við náttúrulega bara komin á risastóran markað og um leið fáum við að selja til Íslands tollfrjálst. En ekki ef að við værum staðsettir á Íslandi.“

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, var einn flutningsmanna tillögunnar. Hún segir að háir tollar hafi verið á ýmsum snakkvörum, 59% á kartöflusnakki og allt upp í 78% á niðursneiddum kartöflum á samta tíma og aðrar snakkvörur voru fluttar inn tollfrjálst.

„Og mönnum fannst bara einboðið að afnema þessa ofurtolla“.

Innlend snakkframleiðsla sé rótgróin og eigi sér marga aðdáendur.

„Og þessi innlenda framleiðsla sé nú þegar að keppa við alls konar snakk sem ber enga tolla og ég á ekki von á öðru en að þeir spjari sig bara ágætlega í samkeppninni“.

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV