
Engir hjúkrunarfræðingar á bakvakt
Elías Pétursson, sveitarstjóri í Langanesbyggð, telur að með þessum aðgerðum sé verulega dregið úr þjónustu við íbúa. „Við teljum að þessi þjónusta sem er verið að bjóða upp á sé alls endis óviðunandi. Þetta er þjónusta sem þarf að vera. Þarna er stórt atvinnufyrirtæki og mikil umsvif yfir sumartímann þegar þetta á að skerast niður.“
Elías telur að með þessum aðgerðum sé verið að spara. Hann óttast jafnframt að þessar aðgerðir verði varanlegar. „Við erum í þeirri stöðu núna að það er ýmist læknir hjá okkur eða á Kópaskeri. Þannig að hluta að tímanum erum við læknislaus. Ef við eigum líka að verða hjúkrunarfræðingslaus á kvöldin og nóttinni þá er það klár skerðing á þjónustu.“
Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands segir að ekki sé þörf á bakvöktum á hjúkrunarþjónustu yfir sumartímann. „Reynslan hefur sýnt það að fjöldi útkalla eða eðli þeirra, er ekki þess eðlis að þörf er á þessari þjónustu að okkar mati á sumrin.“
Hann segist skilja áhyggjur íbúa Langanesbyggðar en telur öryggi þeirra þó ekki hætta búin. „Auðvitað er þetta ákveðin minnkun á þjónustu en við teljum þetta ekki hafa nein áhrif á öryggi.“