Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Engir hjúkrunarfræðingar á bakvakt

20.06.2015 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: www.langanesbyggd.is - Langanesbyggð
Engir hjúkrunarfræðingar verða á bakvakt í Langanesbyggð í sumar ólíkt undanförum árum þar sem hjúkrunafræðingur eða ljósmóðir hefur verið til taks allan sólarhringinn. Sveitastjórn lýsir yfir áhyggjum af ástandinu. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands segir öryggi íbúa ekki ógnað.

Elías Pétursson, sveitarstjóri í Langanesbyggð, telur að með þessum aðgerðum sé verulega dregið úr þjónustu við íbúa. „Við teljum að þessi þjónusta sem er verið að bjóða upp á sé alls endis óviðunandi. Þetta er þjónusta sem þarf að vera. Þarna er stórt atvinnufyrirtæki og mikil umsvif yfir sumartímann þegar þetta á að skerast niður.“

Elías telur að með þessum aðgerðum sé verið að spara. Hann óttast jafnframt að þessar aðgerðir verði varanlegar. „Við erum í þeirri stöðu núna að það er ýmist læknir hjá okkur eða á Kópaskeri. Þannig að hluta að tímanum erum við læknislaus. Ef við eigum líka að verða hjúkrunarfræðingslaus á kvöldin og nóttinni þá er það klár skerðing á þjónustu.“

Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands segir að ekki sé þörf á bakvöktum á hjúkrunarþjónustu yfir sumartímann. „Reynslan hefur sýnt það að fjöldi útkalla eða eðli þeirra, er ekki þess eðlis að þörf er á þessari þjónustu að okkar mati á sumrin.“

Hann segist skilja áhyggjur íbúa Langanesbyggðar en telur öryggi þeirra þó ekki hætta búin. „Auðvitað er þetta ákveðin minnkun á þjónustu en við teljum þetta ekki hafa nein áhrif á öryggi.“

Eyþór Sæmundsson