Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Engir fundir, heimsóknir bannaðar og starfsmenn heima

13.03.2020 - 10:07
Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet
Samfélagslega mikilvæg fyrirtæki hér á landi grípa nú til róttækra aðgerða til að tryggja áframhaldandi starfsemi vegna COVID-19 faraldursins. Meirihluti starfsmanna Orkuveitunnar vinnur nú að heiman, búið er að banna heimsóknir í stjórnstöð Landsnets og Landsvirkjun er eins og aðrir á neyðarstigi

Öll starfsemi Landsnets á neyðarstigi

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets segir að öll starfsemi fyrirtækisins sé á neyðarstigi og neyðarstjórn þess komi saman daglega. Eins og annarstaðar hafi þrif verið aukin og sprittbrúsum dreift.

„Verið er að undirbúa að þeir sem geti vinni að heiman en starfsfólkinu hefur verið skipt upp í hópa. Engir fundir eru í húsinu og starfsfólk sækir heldur ekki fundi nema brýn nauðsyn sé og í augnablikinu eru eingöngu haldnir fjarfundir.“

Einnig hafai verið sett takmörk á það hvernig starfsfólk safnast saman og einungis er ákveðinn fjöldi er í einu í matsalnum.

Þarf að vernda stjórnstöðina

Heimsóknir hafa verið bannaðar á Gylfaflöt þar sem stjórnstöðin er til að vernda hana og tryggja örugga afhendingu orku sama hvað á gengur. Stjórnstöðin er í gangi allan sólarhringinn og segir Steinunn að einnig þurfi  að vernda netþjónustuna sem sinnir viðgerðum á vettvangi.

Landsnet hefur farið þess á leit við starfsfólk að það fari ekki á fjöldasmkomur og búið er að fresta árshátíðum og stórum fundum. Einnig hefur verið óskað eftir því að verktakar, ráðgjafafyrirtæki og verkfræðistofur sem vinna fyrir Landsnet geri það sama. „Allir hafa tekið vel í þessi tilmæli og virðast vera tilbúnir til að gera allt sem í þeirra valdi stendur.“

Hundrað þrjátíu og fimm vinna hjá Landsneti sem er með starfstöðvar í Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum. Steinunn segir að aðgerðirnar séu í  samræmi við viðbragðsáælun Landsnets sem er samhljóða aðgerðum flutningsfyrirtækja á Norðurlöndunum.

Meiri hluti starfsmanna Orkuveitunnar er heima

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar segir að um leið og landið fór á neyðarstig var ákveðið að gera allt til að tryggja áframhaldandi starfsemi Orkuveitunnar og ganga langt og jafnvel lengra en boðað væri. „Við erum að þjóna hátt í 70 prósent þjóðarinnar.“ Allir sem geti vinni nú að heiman og það sé meiri hluti allra starfsmanna.

Þeir sem vinni við veitukerfi og í virkjunum hafi hins vegar verið skipt í hópa sem hittist ekki. Það sé gert til að koma í veg fyrir að þau lendi í sóttkví. Matsalurinn hafi verið skipulagður þannig að einungis ákveðinn fjöldi starfsmanna megi borða í einu og salurinn sé hólfaskiptur. Þrif hafi verið aukin og allar samkomur felldar niður.

Fundir séu eingöngu haldnir í gegnum fjarfundabúnað. Milli fimm og sex hundruð manns vinna hjá fimm fyrirtækjum sem tilheyra orkuveitusamstæðunni. Það eru Orkuveita Reykjavíkur, Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveitan og CarbFix verkefnið. 

Landsvirkjun á neyðarstigi

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun hefur fyrirtækið fylgt viðbragðsstigi almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra. Neyðarstjórn fyrirtækisins fylgist vel með og er búið að gera nauðsynlegar ráðstafanir á öllum starfsvæðum. Ákvarðanir Neyðarstjórnar Landsvirkjunar miða að því að viðhalda truflanalausri starfsemi á starfssvæðum fyrirtækisins ásamt  því að tryggja heilsu og öryggi starfsmanna. Tekið er tillit til tilmæla frá Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis og sóttvarnalækni.

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV