Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Enginn vill una við óbreytt ástand varðandi smálán“

22.11.2019 - 11:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Enginn vill una við óbreytt ástand varðandi smálán,“ segir Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Nefndin hefur til umfjöllunar frumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja. Óli Björn er bjartsýnn á að unnt verði að afgreiða frumvarpið úr nefnd fyrir jól. 

Tvö mál eru fyrir nefndinni um smálán. Annað er frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur og hitt er frumvarp Oddnýjar Harðardóttir um starfsemi smálánafyrirtækja

Aðspurður segir Óli Björn það líklegt að nefndin muni leggja til breytingar á frumvarpi ráðherra, m.a. varðandi skráningarskyldu smálánafyrirtækja.

Spurning hversu langt eigi að ganga

Fjölmargir gestir hafa verið kallaðir fyrir nefndina, m.a. fulltrúar frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Neytendasamtökunum, Fjármálaeftirliti og Umboðsmanni skuldara. Óli Björn segir að í megindráttum hafi verið samhljómur meðal gesta. Þá greini hins vegar á um hversu langt eigi að ganga gagnvart smálánafyrirtækjum, t.a.m. um skráningarskyldu og þak á hlutfallstölu kostnaðar.

„Allir gestir hafa verið sammála um að núverandi ástand sé með þeim hætti að ekki verði við unað,“ segir Óli Björn. Ekki hafi verið neinn ágreiningur í nefndinni um málið. Málið snúist um það hversu langt skuli ganga. „Enginn vill una við óbreytt ástand,“ segir Óli Björn. Hann segir að það kæmi honum á óvart ef ekki tekst að afgreiða frumvarpið úr nefnd fyrir jól.

Eitt smálánafyrirtæki skilað inn umsögn

Kallað var eftir umsögnum við frumvarpið og hafa nokkrir sent inn umsögn. Hins vegar hefur aðeins eitt þeirra fimm smálánafyrirtækja sem óskað var eftir umsögn frá, orðið við beiðninni. Þannig skilaði Ecommerce inn umsögn en ekki fyrirtækin 1909 ehf., Smálán, Hraðpeningar ehf., Kredia - smálán og Múla ehf. - neytendalánafyrirtæki. 

Vara við frumvarpinu

Í umsögn Ecommerce segir að gjalda verði varhug við frumvarpinu. „gæta verður þess að ekki verði samþykkt í lög ákvæði sem torvelda lögmæta lánastarfsemi,“ segir jafnframt. 

Alþýðusambandið og Neytendasamtökin hafa boðið aðgerðir gegn smálánum í næstu viku. Hvorki forseti Alþýðusambandsins né formaður Neytendasamtakanna vildu greina fréttastofu frá því hvað í þeim aðgerðum muni felast. Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði í samtali við fréttastofu að sambandið ætli að leggja baráttunni gegn smálánum lið. Þetta sé enn eitt sem lágtekjufólk glími við. Þá séu mörg dæmi þess að foreldrar barna sem leiðist út í neyslu sitji uppi með milljóna smálánaskuldir barnsins. Neytendasamtökin hafa gagnrýnt frumvarp ráðherra og segja það ekki ganga nógu langt.