Enginn slasaðist er eldur kom upp í Kópavogi

Mynd með færslu
 Mynd: Sólveig Klara Ragnarsdóttir - Aðsend mynd
Engan sakaði þegar mikill eldur kom upp á svölum fjölbýlishúss í Hvarfahverfi í Kópavogi á sjöunda tímanum. Eldri hjónum tókst að komast út úr íbúðinni áður en hún fylltist af reyk. Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út.

Eldurinn kviknaði í gasgrilli á svölum. „Þegar við komum á staðinn þá var töluvert mikill eldur á svölunum. Þar eru glersvalir og glerið var að brotna þegar við komum. Við náðum að slökkva eldinn en rúða inn í íbúðina hefur gefið sig vegna hita. Það hefur farið töluvert mikill reykur inn í íbúðina,“ segir Ari Jóhannes Hauksson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. 

Reykur barst á stigagang fjölbýlishússins og töluverðar skemmdir urðu á íbúðinni. „Það fór reykur um alla íbúð en sem betur fer fór ekki eldur inn,“ segir Ari. Slökkvistarf gekk greiðlega. 

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi