Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Enginn með veiruna á sóttvarnarhóteli

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúss hjá Rauða krossinum sem stýrir nú Fosshóteli við Rauðarárstíg, segir að enginn sé smitaður af COVID-19 sem nú er í húsinu. Öll sýni hafi komið út neikvætt. Davíð Torfi Ólafs­son fram­kvæmda­stjóri Íslands­hót­ela segir að níu starfsmenn hafi óskað eftir að fá að hætta þegar Sjúkratryggingar tóku hótelið yfir.

Ekki ráðrúm fyrir hefðbundið innkaupaferli

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að ekki hafi þurft að beita neinum lögum til að taka Fosshótel Lind við Rauðarárstíg yfir heldur hafi einfaldlega verið leitað til Íslandshótela og óskað eftir að fá að taka það á leigu. Ákveðið hafi verið að leita til hótelkeðju svo hægt væri að flytja gesti yfir á önnur hótel keðjunnar.

Kostnaður við leiguna hefur ekki verið gefinn upp en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að kostnaðurinn sé á annað hundrað milljónir.  María segir að það sé yfir útboðsmörkum. „Ekki var ráðrúm til að fara í hefðbundið innkaupaferli vegna tímapressu. Í ljósi aðstæðna er heimilt að víkja frá reglum.“ Samningurinn gildir að lágmarki í tvo mánuði en hægt er að framlengja hann. 

Engum starfsmönnum sagt upp 

Davíð Torfi Ólafs­son fram­kvæmda­stjóri Íslands­hót­ela segir að engum starfsmönnum hafi verið sagt upp á hótelinu. Ljóst hafi verið frá upphafi að ekki væri hægt að skipa neinum að vinna á hótelinu eftir að það var gert að sóttvarnarhúsi. Þeim sem ekki treystu sér til að vinna þar hafi verið boðin sambærileg vinna á öðrum hótelum Íslandshótela. Einn af þeim sem vinnur við þrif á herbergjum og morgunverði hafi þegið boðið en níu óskað eftir því að láta af störfum.  Hótelstjóri og starfsmenn móttöku séu áfram í sínum störfum en yfirvöld hafi óskað eftir að Rauði krossinn taki yfir stjórnina á húsinu fyrir þeirra hönd. 

Rauði krossinn stjórnar húsinu  

Rauði krossinn sér um sóttvarnarhúsið og Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúss hjá Rauða krossinum var skipaður af stjórnvöldum til að hafa umsjón með hótelinu fyrir hönd ríkisins.  Húsið er hugsað fyrir ferðamenn og Íslendinga sem geta ekki verið í sóttkví eða einangrun heima hjá sér.

Gylfi segir að sex gestir séu í húsinu, þar af eitt barn. Enginn þeirra sé  smitaður af veirunni, öll sýni hafi verið neikvæð. Allir sem eru í húsinu eru því í sóttkví en ekki einangrun.  

Gestirnir sjá sjálfir um þrif á herbergjum

Gylfi segir að gestirnir sjái sjálfir um að þrífa herbergin sín en sérstakt fyrirtæki sem sérhæfir sig í sótthreinsiþrifum sjái um móttökuna, lyftur og almenning á hótelinu. Maturinn sé sendur í sérstökum umbúðum á lokuðum bökkum. Allir gestirnir hafi fylgt reglunum út í ystu æsar og gert meira en þörf krefur. 

Öryggisverðir á vakt

Öryggisverðir sjá um eftirlit í húsinu.  „Öryggisverðir eru staðsettir í lobbýinu og koma ekki nálægt gestunum. Við erum líka með myndavélar á göngunum. Þetta er vegna þess að við verðum að vera með vakt allan sólarhringinn ef eitthvað kæmi upp í húsinu, færi að leka eða kviknaði í, þá þarf að vera eftirlit í húsinu. Og líka svo starfsfólkið okkar geti lagt sig á nóttunni.“  

Öryggisverðirnir sjái líka um að enginn komi inn í húsið sem ekki á þangað erindi.  

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV