Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Enginn gosórói en fylgst með Kötlu

29.08.2016 - 13:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enginn gosórói hefur mælst í kjölfar jarðskjálftanna sem urðu í Mýrdalsjökli í nótt. Þó er vel fylgst með svæðinu og eldstöðinni Kötlu. Þetta segir Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár á Veðurstofu Íslands.

„Það sem gerðist í nótt var að þarna voru tveir skjálftar með 20 sekúndna millibili, annar var 4,5 og hinn var 4,6,“ segir Kristín. „Við sáum að það var skjálftavirkni sunnarlega í öskjunni en svo var eins og hún færðist til norðausturs. Þetta eru auðvitað stórir skjálftar en við sjáum engin frekari merki eftir þessa skjálfta. Það hefur dregið mjög úr virkninni og við sjáum engin sérstök merki í vatni eða öðru.“

Fundust þessir skjálftar í byggð?

„Það kom tilkynning í nótt um að þeir hafi fundist í Langadal í Þórsmörk en meira veit ég ekki. Það er ekki ólíklegt, en þetta gerðist náttúrulega um miðja nótt.“

Nú hefur Katla gosið með reglulegu millibili í gegnum aldirnar. Stórir skjálftar sem hafa fundist í byggð hafa verið undanfari þeirra hamfara sem Kötlugösi fylgja. Vitið þið hversu stórir skjálftar það hafa verið?

„Nei það er mjög erfitt að segja. Síðasta gos var 1918 þannig að þar erum við komin út fyrir þennan ramma þar sem við erum með áreiðanlegar upplýsingar um stærðir skjálfta. En það hefur verið talað um skjálfta af stærðinni fimm.“

Er alveg víst að þessir skjálftar séu ekki undanfari eldgoss?

„Við vitum auðvitað ekki alveg hvernig Katla hegðar sér. Við höfum ekki upplifað eldgos síðan 1918 og höfum því ekki mælt það. Þannig að við erum bara á tánum við að mæla og fylgjast vel með, og eins og ég segi þá eru þetta stærstu skjálftar þarna síðan 1977.“ 

Eru einhverjar vísbendingar um áframhaldandi skjálfta?

„Nei nú er bara að bíða og sjá.“

Og það er enginn gosórói?

„Enginn gosórói hefur mælst nei,“ segir Kristín.