Enginn fundur boðaður og engin vinna hjá sveitarfélögum

18.03.2020 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilu Eflingar við Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerði og Sveitarfélagið Ölfus. Engin vinna er í gangi hjá samninganefnd sveitarfélaganna og þar á bæ er aðeins beðið eftir því að nýr fundur verði boðaður. Framkvæmdastjóri Eflingar gagnrýnir að ekki sé vilji til samtals.

Síðast var fundað í kjaradeilunni á mánudaginn. Ótímabundið verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá sveitarfélögum á og við höfuðborgarsvæðið heldur því áfram. Verkfallið hefur mikil áhrif á skólastarf, en veittar eru undanþágur í velferðarkerfinu.

Þær upplýsingar fengust hjá Ríkissáttasemjara í dag að síðasta fundi hafi lokið með þeim orðum að næsti fundur yrði boðaður þegar tilefni væri til. Það tilefni sé ekki enn komið.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaganna, sagði í samtali við fréttastofu í dag, að staðan sé óbreytt og að nefndin bíði eftir því að nýr fundur verði boðaður. Aðspurð hvort einhver vinna sé í gangi hjá nefndinni segir Inga Rún að svo sé ekki. Tilboð nefndarinnar standi óbreytt, það er að segja sami samningur og gerður hafi verið við á fjórða tug stéttarfélaga um sambærileg störf. Efling sé eina félagið sem standi út af.

Verkfallið hefur áhrif á starf í fjölmörgum skólum í sveitarfélögunum, og bætist ofan á skerðingu vegna COVID-19 faraldursins. Inga Rún segir að einhverjir skólar séu alveg lokaðir vegna stöðunnar.

„Óeðlilegar tafir“

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að þar á bæ sé mikil vinna í gangi. „Við látum óeðlilegar tafir hjá gagnaðilanum ekki standa í vegi fyrir því að við vinnum okkar vinnu,“ segir Viðar. „Við erum í sérkennilegri stöðu þegar ekki er boðað til fundar og það er gagnrýnivert að ekki sé vilji til þess að halda samtalinu áfram.“

Viðar bendir á að stjórnvöld hafi hvatt sérstaklega til þess að kjaradeilum verði lokið eins fljótt og hægt sé, í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin vegna COVID-19 faraldursins. „Og það er sérkennilegt að Kópavogsbær leggi áherslu á að fá undanþágubeiðnir, til þess að samningslaust láglaunafólk fari að þrífa út af COVID-19.“

Skólaliðar í Eflingu sem starfa í grunnskólum í Kópavogi sendu í gær Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs, erindi þar sem þau gagnrýndu að bærinn krefji þau um undanþágur frá verkfalli með vísun í Covid-19 faraldurinn, á sama tíma og bæjarstjórinn tefji kjaraviðræður, eins og það var orðað.

Viðar segir að Efling hafi í þrígang óskað eftir viðræðum við Ármann, en að þeim beiðnum hafi ekki verið svarað.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi