Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Enginn á sjúkrahúsi vegna COVID-19

08.03.2020 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enginn þeirra sem greinst hefur með COVID-19 veiruna hérlendis er svo veikur að hann þurfi að liggja á sjúkrahúsi. Heilsugæslan og Læknavaktin sinna þeim sem eru veikir.

Sýnatökur vegna COVID-19 fara nú að mestu fram á bílastæðum heilsugæslustöðva. Mikið álag hefur verið á starfsfólki heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og Læknavaktarinnar undanfarið vegna faraldursins. 

Fara í heimavitjanir til smitaðra

Fimmtíu eru smitaðir af kórónaveirunni hérlendis, en von er á næstu niðurstöðum úr sýnatökum eftir hádegi. Samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskra heimilislækna er enginn þeirra sem greinst hefur með veiruna hérlendis svo veikur að hann þurfi að liggja á sjúkrahúsi. Hjúkrunarfræðingar og læknar heilsugæslunnar hafa tekið að sér að sinna smituðum og fara í heimavitjanir til þeirra eftir þörfum.

Mynd með færslu
 Mynd: Læknavaktin - RÚV
Bíll Læknavaktarinnar sem fer í vitjanir og sýnatökur

Auk þessa taka starfsmenn við þúsundum símtala í símanúmerið 1700 og sinna hundruðum sýnataka. Oddur Steinarsson, varaformaður Félags íslenskra heimilislækna, segir þetta mikla viðbót við hefðbundin verkefni heilsugæslustöðva. „Það hefur náttúrulega aukist álagið mitt í þessu veikindatímabili, þetta eru yfirleitt þyngstu mánuðir ársins hjá heilsugæslunni og þetta hefur bæst við,“ segir Oddur. „Það eru sýnatökur núna daglega á flestum heilsugæslum þar sem við erum að taka sýni úr þeim sem eru grunaðir um smit og síða  hefur sérstaklega aukist símaþjónustan, fólk hringir mikið og spyr, bæði á heilsugæsluna og Læknavaktina.“

Mælst hefur verið til þess að fólk nýti sér símann eða netið í stað þess að mæta á heilsugæsluna, ef þess er kostur. Þeir sem telja sig smitaða af kórónaveirunni eru beðnir um að hringja í síma 1700 en ekki koma á móttöku sjúklinga.

Læknavaktin hefur bætt við bíl til vitjana og aukið mönnun í símaveri 1700. Oddur segir að mestu hætt að fara heim til fólks í sýnatöku, þar sem álagið hafi verið of mikið. „Sá bíll sem var að keyra út hafði ekki undan, og því hefur verið reynt að setja þetta yfir á heilsugæsluna á dagvinnutíma, en í þeim tilvikum þar sem að viðkomandi komast ekki á heilsugæslu þá fer sá bíll.“

Sýnatakan fer fram fyrir utan heilsugæslustöðvar. „Við höfum þetta á ákveðnum tíma dagsins, reynum að safna saman þeim sem þarf að taka sýni úr,“ segir Oddur. „Við klæðum okkur upp í hlífðarbúning og förum síðan út á plan fyrir utan heilsugæslunstöðina og tökum strok úr nefholi og koki.

Mynd með færslu
Oddur Steinarsson læknir, klár í sýnatöku vegna COVID-19 Mynd: Læknavaktin - RÚV
Oddur Steinarsson læknir, klár í sýnatöku vegna COVID-19.