Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Engin úthugsuð tilraun til að fela efnin

10.09.2015 - 11:32
Mynd: Rúv.is / skjáskot
Parið, sem var handtekið á Seyðisfirði á þriðjudag með um 80 kíló af hvítu efni, gerði enga úthugsaða tilraun til að fela efnin vandlega eða þilja þau af í húsbíl sínum samkvæmt heimildum fréttastofu. Lögreglan verst allra fregna af málinu sem er eitt það stærsta sinnar tegundar hér á landi.

Parið, sem er um fertugt og er frá Hollandi, var úrskurðað í tveggja vikna gæsluvarðhald í gær. Heimildir fréttastofu herma að efnin hafi verið falin í farangri og búnaði bílsins og því reyndist það ekki vandasamt fyrir tollverði að finna efnin.

Fólkið var flutt suður með flugvél Flugfélags Íslands í sitthvoru lagi síðdegis í gær og er maðurinn nú á Litla Hrauni.  Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur hann verið yfirheyrður en engin játning liggur fyrir.

Lögregluyfirvöld verjast allra fregna af málinu sem er hugsanlega eitt það stærsta sinnar tegundar á síðari árum. Lögreglan á Austurlandi segir að það muni taka nokkra daga að vigta og greina efnin nákvæmlega. 

Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um hvort einhverjir Íslendingar hafi verið yfirheyrðir í tengslum við málið. Parið hefur eftir því sem fréttastofa kemst næst fullyrt að það hafi engin tengsl við landið - það hafi aldrei komið hingað áður.

Parið kom til landsins með Norrænu og hafði tekið húsbíl á leigu hjá erlendri bílaleigu. Árni Elíasson, yfirtollvörður á Seyðisfirði, sagði í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld að málið hefði ekki átt sér langan aðdraganda. „Það er ekki hægt að segja það en grunnurinn að þessu er vönduð áhættugreining hjá tollinum á Íslandi í samvinnu við tollyfirvöld í Færeyjum og lögreglu hér á landi.“

Fréttastofa hefur í dag reynt að fá upplýsingar um hvort eitthvað samstarf sé við lögregluyfirvöld í Hollandi en engin svör fengið.

Þetta er annað stóra fíkniefnamálið á þessu ári þar sem hollenskir ríkisborgarar eru teknir með mikið magn fíkniefna. Á föstudaginn langa voru hollenskar mæðgur handteknar með um 20 kíló af amfetamíni, kókaíni og MDMA í ferðatöskum sínum. 

Dóttirin var ekki ákærð en lögreglan notaði móðurina sem tálbeitu til að ná íslenskum manni sem einnig hefur verið ákærður vegna málsins.

 

 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV