Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Engin stefna um hver fái að virkja

22.05.2019 - 09:20
Mynd: Jóhannes Jónsson / RUV.IS
Ríkið þarf að setja skýrar reglur um hvernig úthluta skuli nýtingarétti á orkuauðlindum. Þetta segir Hilmar Gunnlaugsson, lögfræðingur sem sérhæfir sig í orkulöggjöf. Hvergi er skilgreint hvort ríkið eða einkaaðilar eigi að nýta virkjunarkosti í opinberri eigu.

Fyrir tveimur árum ákvað ESA að endurgjaldslaus nýting á orkuauðlindum ríkisins geti falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Síðan þá hefur starfshópur unnið að tillögum um bæði gjaldtöku og úthlutun virkjanaleyfa. ESA telur líka að ríki þurfi að taka upp opið valferli, eins konar útboð á virkjunarleyfum. Starfshópurinn hefur, samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu, horft til Noregs. 

„Ég held að það sé fyrst og fremst verið að gera kröfur af hálfu ESA um að ríki hafi gagnsæjar reglur á samkeppnissviði. Við getum alveg, og Norðmenn hafa farið þá leið til dæmis, að þegar kemur að stórum vatnsaflsvirkjunum þá eru ákvæði um það að einkaaðilar megi ekki eiga meira en 30 prósent eða þriðjung í slíkum verkefnum. Hitt skuli vera í opinberri eigu og það er ekki verið að mismuna mönnum þar, það gengur jafnt yfir alla, innlenda sem erlenda einkaaðila. Ég tel eðlilegt að við myndum skoða slík atriði um mótun okkar Orkustefnu,“ segir Hilmar.  

Slík stefna á að vera tilbúin á næsta ári. Segja má að raforkufyritæki hafi hingað til helgað sér virkjanakosti með rannsóknum, þó að formlega sé rannsóknarleyfi ekki ávísun á virkjanaleyfi. Starfshópurinn skoðar einmitt samspil rannsóknarleyfa og virkjunarleyfa. „Landeigandi á ákveðinn forgangsrétt sem snýr meira að þörfum hans og þess háttar en að því búnu, ef enginn annar er að bera sig eftir þessu, þá bara sá fyrsti sem kemur, hann er líklegur til að fá þá þörf leyfi sem hann þarf.“

Tilvist þjóðlendna eykur enn mikilvægi þess að til séu skýrar og gagnsæjar reglur eða stefna á þessu sviði, að mati Hilmars. „Af því að við vitum að það eru ýmsir aðilar sem vilja fá að nýta auðlindir í þjóðlendum. Stundum eru þær bara smá hluti af því sem er undir og þá er auðvitað mjög brýnt upp á að geta tekið ákvörðun, ekki síður gagnvart öðrum landeigendum, að það séu þessar skýru reglur og skýra stefna.“  

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV