Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Engin merki um að gosinu sé að ljúka

11.10.2014 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur flaug með TF Sif yfir gosstöðvarnar í gær. Hann segir að nokkrir smærri jarðhitasigkatlar við Bárðarbungu hafi verið greinilegri en áður, en engin merki um að gosinu í Holuhrauni sé að ljúka.

Enginn skjálfti yfir 5 að stærð hefur orðið í öskju Bárðarbungu frá því fyrradag. Rúmlega 30 skjálftar urðu þar í nótt og stór skjálfti varð í gærkvöld laust eftir níu. Hann mældist  4,5 að stærð. Skömmu fyrir hádegi í gær varð skjálfti sem var 4,8.  

Magnús Tumi segir að frá því jarðhrærningar hófust í águst hafi sigið 35 metra í Bárðabungu. Síðan séu nokkrir jarðhitasigkatlar margfalt minni í jöðrunum á nokkrum stöðum. Þeir séu orðnir greinilegri en þeir hafi verið og það þurfi að mæla þetta betur. Alveg megi eins eiga von á því að þarna geti aukist jarðhiti samhliða þessu. Það muni koma í ljós á næstunni hvort þetta sé byrjað að gerast eða ekki.

Mikla blámóðu og gas leggur frá gosstöðvunum í Holuhrauni. Magnús Tumi segir að býsna mikil móða hafi verið yfir Suðurlandi og náð frá Reykjavík og austur að Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli. Þetta hafi verið heilmikið ský sem lagt hafi suður í haf og kannski verið svona víðáttumikið vegna þess að vindur hafi ekki verið meiri en raun bar vitni. Þetta hafi ekki náð mjög hátt, legið svona í neðstu tveim kílómetrunum. Eyjafjallajökull hafi að miklu leiti staðið upp úr því.