Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Engin hlutabréf í olíufyrirtækjum

26.10.2015 - 14:33
Mynd: Sutterstock / Shutterstock
Í málefnasáttmála flokkanna sem mynda borgarstjórnarmeirihluta í Osló er m.a. að finna samþykkt um að selja öll hlutabréf borgarinnar í fyrirtækjum sem sýsla með jarðefnaeldsneyti. Þetta er dæmi um þá fjárlosun sem Stefán Gíslason fjallar um í pistli sínum í dag.

Fjárlosun er hugtak sem hefur heyrst annað slagið í umræðunni síðustu mánuði. Reyndar hefur orðið fjárlosun líklega ekki unnið sér neinn hefðarrétt í íslensku máli enn sem komið er, en þarna er á ferðinni tilraun til að þýða enska orðið divestment, sem er andheiti við investment, þ.e.a.s. fjárfestingu. Fjárlosun er sem sagt andheiti við fjárfestingu og lýsir þeirri aðgerð einstaklinga, fyrirtækja, stofnana eða samtaka að losa um eignir sínar í tilteknum fyrirtækjum eða atvinnugreinum.

 Sú fjárlosun sem hefur verið hvað mest til umræðu upp á síðkastið snýst um að selja hlutabréf í olíufélögum og öðrum fyrirtækjum sem sýsla með jarðefnaeldsneyti. Hvað menn gera svo við kaupverðið er svo sem annað mál, en eftir fjárlosun af þessu tagi kjósa margir að fjárfesta á nýjan leik í fyrirtækjum sem einbeita sér að þróun endurnýjanlegra orkugjafa.

 Minnugustu hlustendur Samfélagsins furða sig líklega á því að fjárlosun sé núna aftur á dagskrá þáttarins þó að ekki séu liðnir nema þrír mánuðir frá síðasta pistli um málið. En við lifum á tímum örra breytinga, eins og stundum er sagt, og á þessum þremur mánuðum hefur talsvert vatn runnið til sjávar í þessum málum. Það helgast m.a. af því að nú nálgast stóra loftslagsráðstefnan í París þar sem leiðtogar þjóða heims hafa einstakt tækifæri, og reyndar einstakar skyldur, til að koma sér saman um metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Sýsl með jarðefnaeldsneyti fellur væntanlega ekki vel að þeim markmiðum.

Í stuttu máli má greina tvær mismunandi ástæður fyrir því að fjárfestar kjósa að losa fjármagn úr olíugeiranum. Önnur ástæðan er alfarið viðskiptaleg. Olíuverð hefur nefnilega farið lækkandi síðustu mánuði og þess vegna vilja ýmsir fjárfestar beina fé sínu í aðrar áttir. Auk þess virðist talsverð áhætta felast í fjárfestingum í kolum, olíu og gasi þegar horft er nokkur ár fram í tímann. Inn í þetta blandast óttinn við að kolefnisbólan springi, en  í raun eru nú uppi svipaðar aðstæður í jarðefnaeldsneytisgeiranum og var í fjármálageiranum fyrir hrun, þ.e.a.s. að hluti af verði hlutabréfa byggist á ætluðum eignum sem aldrei verður hægt að koma í verð. Þarna er auðvitað átt við það sem kallað hefur verið óbrennanlegt kolefni, þ.e.a.s. þær þekktu eldsneytisbirgðir sem verða að liggja óbrenndar í iðrum jarðar um ókomin ár ef loftslagsbreytingar eiga ekki að fara endanlega úr böndunum. Hin ástæðan fyrir fjárlosuninni er umhyggja fyrir umhverfinu og komandi kynslóðum. Ýmis samtök hafa beitt sér af miklum krafti fyrir fjárlosun til að reyna að flýta fyrir þróun hagkerfa heimsins í átt að kolefnishlutleysi og draga þannig úr skaða af völdum loftslagsbreytinga. Reyndar liggja viðskiptaleg rök líka þarna að baki, því að það getur engan veginn verið ábótasamt til lengdar að standa í viðskiptum sem skaða náttúruna sem allt mannkynið byggir afkomu sína á.

 Ein af athyglisverðustu fjárlosunarfréttunum utan úr heimi síðustu daga er sú stefna sem nýr borgarstjórnarmeirihluti græningja, sósíalista og jafnaðarmanna í Osló kynnti fyrr í þessum mánuði. Í málefnasáttmála þessara flokka er m.a. að finna samþykkt um að selja öll hlutabréf borgarinnar í fyrirtækjum sem sýsla með jarðefnaeldsneyti. Þarna erum við að tala um fjárlosun upp á rúmlega 1.100 milljarða íslenskra króna. Áður hafa reyndar 45 borgarstjórnir víða um heim tekið sambærilega ákvörðun um fjárlosun, en Osló er fyrsta höfuðborgin sem stígur þetta skref.

 Á þessu stigi er engin leið að segja til um hvenær sú fjárlosunarhreyfing sem greinilega er komin í gang fer að hafa verulega áhrif. Þessir 1.100 milljarðar sem nýi borgarstjórnarmeirihlutinn í Osló ætlar að færa til er aðeins eitt dæmi af mörgum og þó að þessi upphæð sé býsna há í samanburði við venjulegt heimilisbókhald er hún ekki stórt hlutfall af heildarvirði hlutabréfa í kola-, olíu- og gasgeiranum. En borgarstjórnin í Osló er síður en svo ein á báti. Í mánaðargamalli samantekt The Guardian kemur fram að fjárlosunarhreyfingin sem hófst í amerískum háskólum hafi breiðst hraðar út en menn óraði fyrir og nái nú til rúmlega 2.000 einstaklinga og 400 trúfélaga, góðgerðarfjárfesta, sveitarfélaga, tryggingarfélaga og lífeyrissjóða í meira en 40 löndum og að heildarupphæð fjárlosunarinnar nemi samtals hvorki meira né minna en 2.600 milljörðum Bandaríkjadala, eða um 333 þúsundum milljarða íslenskra króna! Þessi uppsafnaða tala er orðin 50 sinnum hærri en hún var fyrir einu ári og jafnast nú á við allar tekjur íslenska ríkisins í 490 ár, sé miðað við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016.

 Nú geta menn velt því fyrir sér hvor ástæðan vegi þyngra í fjárlosununni, áhyggur fjárfesta sem hugsa bara um peningana sína eða umhyggjan fyrir umhverfinu. Í byrjun þessa árs sagði Sasja Beslik, yfirmaður sjálfbærra fjárfestinga hjá norræna Nordea bankanum í blaðaviðtali að krafan um fjárlosun væri engin tískubylgja og að það væru hreint ekki einhverjir umhverfisaktívistar sem væru leiðandi í þessari þróun. Drifkrafturinn á bak við fjárlosun í jarðefnaeldsneytisgeiranum væri einfaldlega blákalt áhættumat fjárfesta. Og þetta væri bara rétt að byrja.

 Fjárlosunarhreyfingin sem hér hefur verið gerð að umtalsefni er ekki aðeins áhugaverð innihaldsins vegna, heldur líka vegna þess að hún er hluti af enn stærri breytingu sem líklega er að verða í dreifingu valds og áhrifa. Sendifulltrúar þjóða sem setjast munu við samningaborðin í París í byrjun desember fara ekki nestislausir að heiman, því að einstök fyrirtæki, samtök og sveitarfélög eru farin að kalla eftir aðgerðum í loftslagsmálum í mun ríkari mæli en áður. Sem dæmi hér innanlands má nefna yfirlýsingu íslenskra fyrirtækja um loftslagsmál sem undirrituð verður í Höfða 16. nóvember fyrir tilstilli Reykjavíkurborgar og Festu. Áður hefur hópur fyrirtækja frá 130 löndum kallað eftir því að metnaðarfull markmið verði samþykkt á ráðstefnunni í París. Það er sem sagt af sem áður var að sendifulltrúar ríkisstjórna séu að reyna að ná einhverju samkomulagi um minni losun í óþökk fólksins og fyrirtækjanna sem standa undir hagkerfunum heima fyrir. Þvert á móti virðast sendifulltrúarnir vera undir þrýstingi að ganga miklu lengra en þeir hafa áður gert, enda sé ekkert fjárhagslegt vit í að standa í viðskiptum sem geta fyrirsjáanlega ekki haldið áfram um langa framtíð. Nú eru það fjárfestarnir sjálfir sem kalla eftir nýjum leikreglum í stað þeirra sem mótast hafa í 150 ára sögu olíuhagkerfisins. Þar er fjárlosun hluti af miklu stærri flóði breytinga. Það er ekki spurning hvort heldur hvenær stíflurnar bresta.

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður