Engin góð ástæða fyrir því að flytja ekki til Íslands

Mynd: RÚV / Hljómskálinn

Engin góð ástæða fyrir því að flytja ekki til Íslands

17.03.2020 - 15:15

Höfundar

Bandaríski tónlistarmaðurinn, leikarinn, uppistandarinn og rapparinn Nick Jameson er einn margra erlendra borgara sem hefur flutt hingað til lands og auðgað menningarlífið á undanförnum árum.

Rætt var við Nick Jameson í Hljómskálanum en hann hefur meðal annars rekið hljómsveitina Foghat og leikið rússneskan forseta í spennuþáttunum 24. „Ég vissi ekkert um Ísland nema að Bobby Fischer og Boris Spasski hefðu teflt hér,“ segir Jameson um hvað hann vissi um Ísland áður en hann kom. „Ég er svo glaður að hafa ekki séð 101 Reykjavík áður en ég kom því af henni að dæma er landið eins og Nuuk, kaldur dapurlegur staður þar sem öllum líður illa.“ Hann segir það hafa hvarflað að sér að flytja eftir að hann spilaði á tónleikum á Rósenberg. „Ég labbaði þangað í hljóðprufu, gekk til baka, labbaði til að fá mér að borða, og svo á tónleikana. Þetta tók um þrjár mínútur, Í LA hefði það verið heill eða hálfur dagur. Ég fór á Tíu dropa eftir tónleikana og sötraði vín og þá datt mér ekki í hug nein góð ástæða fyrir því að flytja ekki til Íslands.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hljómskálinn
Jameson hefur átt í miklu samstarfi við íslenska tónlistarmenn.

Jameson segir mikið að gerast í íslensku menningarlífi. „Ég segi fólki alltaf að hér séu trúlega fleiri frábærir gítarleikarar en í LA. Þungarokksgítarleikararnir hér hafa farið í tónlistarskóla, og sýna magnaða djasstakta." Hann er mjög hrifinn af hipphoppi og segir marga frábæra rappara á landinu, auk þess að hafa mikinn áhuga á Högna. „Ég hef lengi sagt að Reykjavík sé suðupottur sköpunar.“

Í sjötta og síðasta þætti af Hljómskálanum var sjónum beint að þeim erlendu gestum hafa sest hér að, þar á meðal Óskarsverðlaunahafa og Hollywoodstjörnur sem hafa auðgað íslenskt tónlistarlíf. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni sem og eldri þætti í spilara RÚV.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Markmiðið að bregðast væntingum áhorfenda

Tónlist

„Sérstök tengsl sem við höfum ekki við neinn annan“

Tónlist

Pylsuát Íslendinga lykillinn að velgengni HAM

Tónlist

Rappa um peninga en hafa ekki efni á að borga