Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Engin banaslys á sjó þriðja árið í röð

13.02.2020 - 07:43
Sjómenn við löndun.
 Mynd: RÚV
Engi sjómaður fórst á síðasta ári við strendur landsins sem er sjötta árið sem slíkt gerist og þriðja árið í röð. Þetta kemur fram í ársskýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Í skýrslunni kemur þó fram að nefndin hafi á skrá eitt banaslys sem varð í Eyjafirði í september en þar lést erlendur ferðamaður við köfun.

Nefndin skráði 57 atvik þar sem slys urðu á fólki. Þau voru 54 árið á undan eða 2018 Flest slysin urðu þegar skip voru á veiðum og algengustu slysin voru svokölluð fallslys og beinbrot. Undirmenn voru í miklum meirihluta þeirra sem slösuðust eða 70 prósent slasaðra.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að eitt skip hafi sokkið og tólf atvikið séu skráð þar sem skip strönduðu. Fjögur af þessum atvikum voru sannarlega vegna þess að stjórnandi sofnaði, segir í skýrslunni. 

Þá eru tvær ásiglingar skráðar á síðasta ári, til að mynda varð talsvert tjón þegar danska flutningaskipið Naja Arctica sigldi á bryggju við Kleppsbakka.
 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV