Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Engin ástæða til að einkavæða Póstinn

27.06.2019 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir enga ástæðu til þess að selja Íslandspóst á þessum tímapunkti. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur lýst því yfir að hann vilji selja Íslandspóst til einkaaðila við fyrsta tækifæri. Katrín segist ekki sjá þann valkost fyrir sér.

 

„Þetta er ekki valkostur sem ég hef séð fyrir mér. Ég lít svo að Íslandspóstur sé núna í því ferli að gera miklar umbætur á rekstrinum sem ég tel löngu tímabærar og nauðsynlegar,“ segir Katrín. Sala Íslandspósts hefur ekki verið rædd innan ríkisstjórnarinnar en Katrín sér engar sérstakar ástæður til þess að einkavæða fyrirtækið. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, sagði í hádegisfréttum að ekki væri tímabært að selja fyrirtækið. Tillaga Bjarna kom Katrínu ekki á óvart, ríkisstjórnin sé stjórn þriggja ólíkra flokka og því skiljanlegt að skoðanir fari ekki alltaf saman. 

 

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV