Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Engar upplýsingar um breytta stöðu Íslands

31.07.2015 - 19:01
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segist engar upplýsingar hafa um að staða Íslands gagnvart Rússum hafi breyst. Landið sé ekki komið á lista yfir bannaðar þjóðir. Fiskútflytjendur hafa verulegar áhyggjur af hugsanlegu banni og segja kaupendur sína í Rússlandi áhyggjufulla.

Fram kom í máli fjölmiðlafulltrúa Pútíns Rússlandsforseta í gær, að til greina kæmi að beita Ísland viðskiptaþvingunum, vegna stuðnings Íslendinga við refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússlandi.  

Íslendingar hafa verið undanþegnir innflutningsbanni Rússa til þessa, þó Ísland hafi frá upphafi stutt aðgerðirnar gegn Rússum.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir engar upplýsingar um að staða Íslands hafi breyst. „Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um slíkt. Við höfum leitað eftir því og sendiráð okkar í Moskvu hefur verið að kanna þetta,“ segir Gunnar Bragi sem skilur þó áhyggjur manna af stöðunni. 

Hann telur þó mikilvægt að menn haldi ró sinni því það sé ekkert nýtt að gerast núna. „Þetta hefur vofað yfir okkur, og auðvitað er það miður ef við lendum á þessum lista, við vitum alveg að það gæti gerst, en það er ekkert nýtt sem kallar á það að rússnesk stjórnvöld ættu að breyta um stefnu í dag.“

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV