Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Engar reglur um starfslokasamninga

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðarson - RÚV
Engar reglur hafa verið settar um starfslokasamninga opinberra starfsmanna þótt árið 2016 hafi verið samþykkt lög þar sem kveðið er á um að ráðherra setji slíkar reglur. Umboðsmaður Alþingis gerði athugsemd við skort á reglum um starfslokasamninga árið 2007.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra skýrði frá því í gær að hún hafi gert starfslokasamning við Harald Johannessen, sem gegnt hefur embætti ríkislögreglustjóra í 22 ár. Samkvæmt honum verður Haraldur á launum í tvö ár, auk þriggja mánaða orlofs. Mánaðarlaun hans nema 1,7 milljónum og nema 27 mánaða laun um 45 milljónum króna. 

Fréttastofa hefur rætt við sérfræðinga í lögum um réttindi opinberra starfsmanna. Samkvæmt þeim á ríkislögreglustjóri lögum samkvæmt rétt á launum út skipunartíma sinn, sé honum sagt upp. Segi hann hins vegar sjálfur upp fyrirgeri hann þeim rétti sínum. Hefði embætti hans í núverandi mynd, verið lagt niður, líkt og dómsmálaráðherra hefur sagt að komi til greina, hefði Haraldur átt rétt á að halda launum í 12 mánuði. Í bréfi til starfsmanna embættisins í gær sagði Haraldur að hann hafi óskað eftir því við dómsmálaráðherra að láta af embætti ríkislögreglustjóra um næstu áramót og ráðherra hafi fallist á lausnarbeiðni hans. 

Umboðsmaður Alþingis hefur bent á að setja þurfi reglur um starfslokasamninga við ríkisstarfsmenn til að tryggja að jafnræðis og samræmis gæti. Árið 2016 voru sett ákvæði í lög um opinbera starfmenn þar sem ráðherra var gert að setja þessar reglur. Samkvæmt heimldum frá fjármálaráðuneytinu eru þessar reglur í lokavinnslu og stutt í að þær verði kynntar.