Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Engar hvalveiðar við Ísland í sumar

27.06.2019 - 11:39
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons / Ruv - Wikimedia Commons
Engar hvalveiðar verða stundaðar í íslenskri lögsögu í sumar, hvorki á hrefnu né stórhveli. Hrefnuveiðimenn ætla að einbeita sér að sæbjúgum og framkvæmdastjóri Hvals hefur sagt Japansmarkað of erfiðan. Þetta er í fyrsta sinn í 17 ár sem engar hvalveiðar verða stundaðar hér.

Fyrsta hvalveiðilausa sumarið í 17 ár

Hvalveiðar hafa verið stundaðar á sumrin á Íslandi síðan 2003, en þá hófust hvalveiðar í vísindaskyni aftur eftir nokkurt hlé. Íslendingar hófu síðan hvalveiðar í atvinnuskyni á ný 2006. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra gaf í febrúar út reglugerð sem heimilaði áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu til 2023, en reglugerðirnar eru endurnýjaðar á fimm ára fresti. Hafrannsóknastofnun hefur ráðlagt að árlegar veiðar á tímabilinu 2018 til 2025 verði að hámarki 209 langreyðar og 217 hrefnur.

En hvalveiðifyrirtækin ætla ekki að veiða hval í sumar, hvorki hrefnu né stórhveli. Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf. tilkynnti í vor að hann ætlaði ekki að veiða neitt í sumar þar sem illa hafi gengið að markaðssetja kjötið í Japan.

Stefnir á hrefnuna næsta vor

Gunnar Bergmann Jónsson, hrefnuveiðimaður og framkvæmdastjóri IP útgerðar, ætlar að einbeita sér að sæbjúgnaveiðum til 1. september.

„Það hentar okkur ekki eins og staðan er akkúrat núna, svo þessi ákvörðun var tekin að sleppa þessu,” segir Gunnar. Hann flytur inn norskt hrefnukjöt til sölu hérlendis til að svara eftirspurn og stefnir að hrefnuveiðum á ný næsta vor.

Þá verða engar hvalveiðar stundaðar í vísindaskyni í sumar, samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun.