Endurvinnanlegt rusl fer nær allt til útlanda

21.07.2019 - 10:50
Mynd: Ragnar Visage / RÚV
Nánast allt endurvinnanlegt rusl á Íslandi fer til endurvinnslu í útlöndum. Nær allur pappír og pappi verður þar að nýjum vörum. Plastið er ýmist endurunnið eða brennt til orkuvinnslu. 

Það er á ábyrgð sveitarfélaga hvernig á að safna sorpi og flokka það. Nokkur fyrirtæki taka við því, flokka það enn frekar og færa áfram í kerfinu. Og þótt ruslið sé hætt að hafa notagildi fyrir okkur getur það verið verðmætt. 

Sorphirðufyrirtæki selja það sem hægt er að endurvinna til útlanda. Úrvinnslusjóður greiður fyrirtækjum sem láta endurvinna úrgang úrvinnslugjald auk þess sem fyrirtæki erlendis greiða fyrir ruslið sem fer á ýmsa staði.  

Allt sent til útlanda

Flöskur og dósir sem Endurvinnslan tekur við eru sendar til Hollands og Bretlands. Í Hollandi er megnið af plastflöskunum sent til endurvinnslu og úr verða nýjar plastflöskur, plast utan um matvæli, flísþræðir og bílavarahlutir. Þar tekur það samtals 20 klukkustundir á ári að endurvinna allar plastflöskur frá Íslandi. Bretar taka við áldósunum þar sem þær verða að nýjum áldósum innan 60 daga. 

Frá Sorpu er plast og pappi sendur til Svíþjóðar. Pappi og pappír er endurunninn og nýttur í dagblaðapappír og pappírsþurrkur. Plastinu, sem er í grunninn unnið úr olíu, er hins vegar brennt til orkuvinnslu og breytt í rafmagn og hita. 

Íslenska gámafélagið og Gámaþjónustan taka á móti sorpi í mörgum sveitarfélögum á Íslandi. Íslenska gámafélagið selur plast til endurvinnslu í Svíþjóð og Gámaþjónustan sendir til Þýskalands. Um 80 prósent af því er endurunnið og verður að nýjum plastvörum en restin er óendurvinnanleg og fer til orkuvinnslu. 

Pappírinn og pappinn sem Íslenska gámafélagið og Gámaþjónustan taka á móti fer til Hollands þar sem hann er endurunninn. Eitthvað af því er svo sent út um heim til fyrirtækja sem framleiða vörur úr endurunnum pappírnum. 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi