Endurskoða aðkomu forsætisnefndar

19.05.2019 - 12:38
Bryndís Haraldsdóttir, stjórnarformaður Strætó bs.
Bryndís Haraldsdóttir Mynd: RÚV/Kastljós
Bryndís Haraldsdóttir, einn af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í forsætisnefnd, telur umræðan um álit siðanefndar í máli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur afar óheppilega til að tryggja hlutlausa og sanngjarna niðurstöðu. Augljóst sé að núverandi fyrirkomulag gangi ekki lengur. Þórhildur Sunna segir það koma til greina að vísa aksturgreiðslum Ásmundar Friðrikssonar til lögreglu.

Álit siðanefndar Alþingis í máli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur hefur vakið hörð viðbrögð um helgina. Gagnrýnt hefur verið þröng túlkun nefndarinnar á ummælum Þórhildar sem hún lét falla í Silfrinu um Ásmund Friðriksson. Sömuleiðis hefur aðkoma forsætisnefndar verið harðlega gagnrýnd, sérstaklega af þingmönnum.

Forsætisnefnd tekur við kvörtunum, ákveður hvort þeim verði vísað til siðanefndar og eftir að siðanefnd hefur skilað áliti í málum tekur forsætisnefnd lokaákvörðun í hverju máli fyrir sig - hvort brotið hafi verið gegn siðareglum eða ekki. 

Eftir að taka lokaákvörðun

Bryndís vonaðist til að mál væru bundin trúnaði svo nefndin gæti komist að sanngjarnri og hlutlausri niðurstöðu. Nefndin eigi eftir að taka lokaákvörðun í máli Þórhildar Sunnu.

„Nú við stöndum þá frammi fyrir því hvort að við munum gera afstöðu siðanefndar að okkar eða taka aðra afstöðu. Fyrir mitt leyti, og ég tala bara fyrir sjálfa mig, þá finnst mér þessi umræða núna mjög óheppileg og ef eitthvað er þá eru minni líkur á því að ég myndi taka aðra afstöðu í dag eftir þessa umræðu því þá fyndist mér augljóst að maður væri að láta undan einhverjum pólitískum og fjölmiðla þrýstingi.“

Ósátt við núverandi fyrirkomulag

Bryndís tekur hins vegar undir það að núverandi fyrirkomulag sé bagalegt. Það hafi orðið ljóst strax í svokölluðu Klausturmáli þegar öll forsætisnefnd var vanhæf til að fjalla um málið. Endurskoða eigi þessi mál á sumarfundi forsætisnefndar.

„Þetta fyrirkomulag getur ekki gilt áfram. Annað hvort verður að vera þannig að hæfisreglurnar eigi ekki við og við sem stjórnmálamenn verðum að geta tjáð okkur um þau mál sem upp koma í samfélaginu á hverjum tíma fyrir sig nú eða þá að gera þetta eins og upphaflega var í lögunum skilst mér þá var forsætisnefnd enginn ákvörðunaraðili í því þannig þá myndi bara úrskurður eða niðurstaða siðanefndar gilda.“

Málið var rætt í Silfrinu nú fyrir hádegi. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segist standa við orð sín sem hún lét falla þá um Ásmund. Hún sagði að það væri rökstuddur grunur að Ásmundur hafi dregið að sér fé, vegna endurgreiðslna sem hann fékk frá Alþingi eftir skráningar í akstursdagbók hans.

Hann fékk 4,6 milljónir árið 2017 endurgreiddar vegna tæplega 50 þúsund kílómetra aksturs yfir árið. Þegar Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði Þórhildi hvers vegna hún færi ekki með málið til lögreglu sagði hún það koma til greina.  

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi