Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Endurreisn Kauphallar

02.11.2011 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Forstjóri Kauphallarinnar segir fjárfesta áhugasama um endurreisn Kauphallarinnar. Hann segir að nokkur fyrirtæki stefni á nýskráningu í Kauphöllinni á næstu misserum.

Stjórn Haga stefnir að því að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallar Íslands í næsta mánuði. Hagar verður þar með fyrsta félagið sem skráð verður í íslensku Kauphöllina frá efnahagshruni.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir nokkur félög til viðbótar hyggja á skráningu á markað í Kauphöllinni á næstu mánuðum. Þar á meðal séu Horn fjárfestingafélag, Reginn fasteignafélag, TM, Skýrr og Reitir.

„Þar að auki vitum við af öðrum fyrirtækjum sem eru að skoða þetta möguleika mjög alvarlega en hafa ekki tilkynnt um það opinberlega. þannig að það er svona mikill undirliggjandi áhugi sem stendur á skráningu,“ sagði Páll í viðtali við fréttastofu RÚV.

Páll telur þessa þróun gríðarlega mikilvæga til að koma fjármagni til atvinnulífsins þar sem hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðir með fyrirtækjabréf hafi verið laskaðir.

„Það sem hefur meðal annars háð hagkerfinu frá hruni er það að farvegur fjármagnsins ti atvinnulífisins hefur að mörgu leiti eða jafnvel flestur leyti verið stíflaður,“ sagði Páll.

Páll segir fjárfesta hafa verið áhugasama um endurreisn hlutabréfamarkaðar á Íslandi.
„Sem er skiljanlegt þeir hafa haft úr mjög litlu að moða búið við gjaldeyrishöft og fábreytta fjárfestingkosti hér á heimamarkaði. þannig að þetta er þeim mjög kærkomið,“ sagði Páll að lokum.