Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Endurbætur á Varmárskóla vegna myglu á áætlun

10.07.2019 - 10:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Endurbætur á Varmárskóla ganga samkvæmt áætlun en þörf var á endurbótum samkvæmt úttekt verkfræðistofunnar Eflu í lok síðasta árs. Í skýrslu Eflu kemur fram að rakavandamál og örveruvöxtur hafi fundist á einstaka stöðum innan skólans.

Á vef Mosfellsbæjar kemur fram að endurbætur á húsnæði gangi vel. Þá sé gert ráð fyrir að við skólasetningu í lok sumars verði öllum helstu framkvæmdum lokið. 

Umhverfissvið Mosfellsbæjar stýrir endurbótum við skólann með ráðgjöf frá Eflu. Verktakar sem vinna á svæðunum þar sem örveruvöxtur greindist hafa allir mikla reynslu af sambærilegum verkefnum. Þá segir einnig að umhverfissvið Mosfellsbæjar leggi mikla áherslu á að fylgja leiðbeiningum Eflu. 

Á síðasta ári sakaði minnihlutinn í Mosfellsbæ meirihlutann um að hafa stungið skýrslu um hugsanlega myglu í skólanum undir stól. Ekki hafi verið gripið til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að nemendur væru ekki í heilsuspillandi húsnæði. Meirihlutinn vísaði þessum ásökunum á bug og sagði úrbætur og viðhald í faglegum farvegi.