Emil: Lít alls ekki á sóttkví sem eitthvað fangelsi

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Emil: Lít alls ekki á sóttkví sem eitthvað fangelsi

26.03.2020 - 16:55
„Þetta er í rauninni bara búið að vera mjög fínt, gæðastundir með fjölskyldunni og ég hef ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í fótbolta, sem lauk í gær tveggja vikna sóttkví á heimili sínu á Íslandi. Emil er búsettur ásamt fjölskyldu sinni í Verona á Norður-Ítalíu en hann spilar með Padova í ítölsku C-deildinni.

Emil flaug heim ásamt fjölskyldu sinni fyrir rúmlega tveimur vikum í þeirri von um að verða klár í slaginn fyrir umspilsleikinn við Rúmeníu sem átti að fara fram í kvöld. „Ég fékk leyfi frá klúbbnum þegar ég var kallaður í þessa landsleiki sem voru þá á dagskrá og það er mjög fínt að hafa fengið að fara heim til Íslands með fjölskylduna. Manni líður betur að vera hér, nálægt fjölskyldu og vinum, þegar svona sérstakir tímar eru í gangi,“ segir Emil.

Erfitt og leiðinlegt ástand

Emil hefur verið búsettur á Ítalíu í áraraðir og heyrir reglulega í félögum sínum þar í landi. „Ég heyri í mínu fólki daglega. Þetta er náttúrulega bara mjög erfitt og leiðinlegt ástand. Þar eru allir að vonast eftir jákvæðum fréttum á hverjum degi og í gær var eitthvað örlítið minna um smit en verið hefur. Ég bið bara fyrir því að þetta fari að lagast,“ segir Emil og bætir við að heilbrigðiskerfið á Ítalíu sé mjög gott.

„Ítalirnir voru svolítið seinir að taka við sér en hafa verið mjög flottir eftir að allt fór á fullt. Ítalía er náttúrulega næst elsta þjóð heims og ég held að það sé að fara svolítið illa með þá. En heilbrigðiskerfið þarna er mjög gott.“

Eina breytingin að fara sjálfur út í búð

Emil lauk sóttkví sinni í gær en hann merkir litla breytingu á aðstæðum sínum eftir sem áður. „Eina breytingin er í rauninni að nú fer maður út í búð sjálfur og verslar í matinn. Þegar ég var í sóttkví gerði fólk það fyrir mann. Allir eiga náttúrulega að vera bara sem mest heima hjá sér. Ég upplifði þessa sóttkví ekki eins og fangelsi, við höfðum það bara voðalega fínt.“

Emil segir fátt á hreinu varðandi framhaldið. „Það berast misjafnar fréttir daglega hvernig staðan er og hvað verður gert. Það eru einhverjar pælingar að æfingar byrji aftur 15. apríl en það getur breyst hvenær sem er. Það er bara algjör óvissa og þangað til eitthvað skýrist bíður maður bara slakur og nýtur tímans með fjölskyldunni“              

Eins og áður segir hefði undanúrslitaleikur Íslands og Rúmeníu í EM-umspilinu átt að vera í kvöld. Leikurinn er á dagskrá 4. júní þess í stað. „Auðvitað hefði verið gaman að spila í snjónum í kvöld en þessi leikur verður bara að bíða betri tíma,“ segir Emil að lokum.

Hægt er að sjá allt viðtalið við Emil í spilaranum hér að ofan.