„Elvis Íslands“ tók viðtal við Bítlana og Stones

Mynd: RÚV / RÚV

„Elvis Íslands“ tók viðtal við Bítlana og Stones

19.02.2020 - 13:47

Höfundar

„Þetta var ótrúlegt. Maður þurfti að klípa sig í handlegginn eftir viðtalið,“ segir textahöfundurinn og myndlistarmaðurinn Þorsteinn Eggertsson sem hefur tekið viðtal við frægustu hljómsveitir heims og samið yfir fjögur hundruð íslenska dægurlagatexta. Á viðburðaríkum ferli kynntist hann meðal annars Hauki Morthens sem kallaði hann Elvis Íslands og fór í eftirminnilegt partý með Led Zeppelin.

Þorstein Eggertsson má hæglega kalla þúsundþjalasmið því hann er í senn myndlistarmaður, blaðamaður, söngvari og textahöfundur sem hefur samið mörg hundruð texta við lög sem hafa verið gefin út á plötum. Hann er Keflvíkingur í húð og hár og fæddur í miðri seinni heimsstyrjöld, árið 1942. Steini hefur unnið með ótal hljómsveitum og tónlistarfólki, meðal annars Ladda, Hljómum, Brimkló, Ðe Lónlí Blú Bojs, Þú og Ég og HLH flokknum. Hann hefur lent í ýmsum ævintýrum, meðal annars með hljómsveitinni Led Zeppelin sem hann dansaði með á Las Vegas á Grensásvegi og sem blaðamaður fékk hann þann heiður að taka viðtal við ekki ómerkilegri hljómsveitir en sjálfa Bítlana og Rolling Stones. Næstkomandi laugardag, 22. febrúar, verður ferli Þorsteins fagnað í Salnum í Kópavogi og lög með textum eftir hann verða flutt af einvala liði hljóðfæraleikara og söngvara. Af því tilefni kíkti hann í Rokkland til Óla Palla og fór yfir ferilinn. 

Hélt uppi fjörinu á heimavistinni

Hann byrjaði að semja texta aðeins fimmtán ára þegar hann var herbergisfélagi Ingimars heitins Eydals sem samdi lögin og fékk vin sinn og herbergisfélaga til að sjá um textana. „Við héldum böll aðra hverja helgi. Hann spilaði á orgel og ég söng í míkrófón,“ rifjar Þorsteinn upp og hlær. Hann hugsar enn með mikilli hlýju til áranna á heimavistinni þó að þar hafi verið stífar reglur um prúðmennsku og engin strákapör leyfileg. „Það var strangt uppeldi þarna og fylgst með manni. Maður mátti ekki vera að laumast inn í herbergi til stelpnanna. Þær áttu heima í stóra húsinu og kennarar og hjúkrunarkona fylgdust með að þær væru einar í herbergjunum,“ segir hann kíminn. „En menn reyndu og komust upp með ýmislegt. En þetta var saklausara en það hljómar, þetta voru engar orgíur.“

Elvis Presley Íslands að sögn Hauks Morthens

Árið 1960 var Þorsteinn valinn til að starfa með KK sextett eftir að hafa rekið augun í auglýsingu þar sem kallað var eftir söngvurum. Margir sóttu um og hópurinn var fljótt þrengdur niður í tíu manns. Að lokum var einn söngvari valinn og það var Þorsteinn. „Ég þekkti Hauk Morthens lítillega og hann var hrifinn af því sem ég var að gera. Ég söng lag með Little Richard og hann kallaði mig Elvis Presley Íslands,“ segir Þorsteinn hógvær. Hann lék með KK í hálft ár fór hann aftur til Keflavíkur og nítján ára stofnaði hann hljómsveit sem hét Beatnicks og hélt uppi stuðinu á Víkinni. 

Árið 1964 fluttist Þorsteinn til Danmerkur að læra myndlist eins og hann hafði alltaf dreymt um að gera. Hann hafði gert sér vonir um að sigra heiminn á einu bretti en dvölin reyndist ekki eins auðveld og hann hafði gert sér í hugarlund. „Þetta var tómt vesen og vitleysa. Maður kunni ekki á neitt kerfi, ég átti ekki pening fyrir mat,“ rifjar hann upp og glottir. „Seinna kynntist maður fólki þegar ég fór á heimili fyrir atvinnulausa sem var mjög fínt.“

Jailhouse Rock í flutningi Þorsteins.


Útvegaði sér blaðamannapassa og tók viðtal við Bítlana

Þegar ákveðið var að gefa út tímarit fyrir heimilið fékk Þorsteinn hugmynd sem átti eftir að breyta stöðu hans verulega. „Það voru allir að prófa að skrifa í blaðið og mér datt í hug að það væri stórsniðugt að prófa að gerast blaðamaður. Ég átti frænda á þingi og bað um blaðamannapassa fyrir Alþýðublaðið. Honum fannst þetta stórsniðugt, ég sendi honum mynd sem hann setti á passann og stimplaði og ég gat notað hann. Eftir það hafði ég það þokkalega gott.“

Áður en Þorsteinn vissi af var hann að taka viðtal við fjóra heimsfræga rokkgosa frá Liverpol, Bítlana. „Þetta var ótrúlegt. Maður þurfti að klípa sig í handlegginn eftir viðtalið. Þetta voru strákar á aldur við mig og þarna voru blaðamenn frá ýmsum tímaritum og útvarpsstöðvum. Það skemmtilegasta var að þeir þurftu aldrei að hugsa sig um þegar þeir svöruðu. Þeir voru stórsniðugir.“

Rolling Stones voru subbulegri en Bítlarnir

Þorsteinn hjó eftir því hvað Bítlarnir voru snyrtilega klæddir og komu vel fyrir. Honum fannst ekki það sama uppi á teningnum með Rolling Stones þegar hann tók seinna viðtal við þá. „Fatnaður þeirra var ekki eins snyrtilegur og Bítlanna. Þeir voru subbulegri að sjá, ólíkir en svo hefur maður heyrt að þetta voru perluvinir.“

Eitt af því fyrsta sem Þorsteinn skrifaði um í blaðið var Haukur Morthens sem þá var að spila á vinsælum stað efst á Strikinu í Kaupmannahöfn. Haukur kom hinum íslenska Elvis, eins og hann kallaði Þorstein, í samband við hljómsveitir í Kaupmannahöfn sem hann fór að spila með. „Ég fór að syngja, fyrst með sveitinni The Lennons sem voru ágætir strákar en yngri en ég. Seinna fór ég að spila með öðrum sem voru eldri og reyndari og hétu The Playboys,“ segir hann. Hann tók fljótt eftir því að stemningin á tónleikum og í kringum hljómsveitirnar var ólík því sem tíðkaðist heima. „Þetta var allt öðruvísi en heima við, það voru ekki stelpur að slást um mann. Þær voru kurteisar og spjölluðu við mann en maður var ekkert að reyna við þær.“

Fyrsta poppstjarna Íslands

Við heimkomu byrjaði Þorsteinn að vinna með hljómsveitinni Dátum sem hann skrifaði ótal texta fyrir, lög á borð við Leyndarmál og Gvendur á eyrinni. Hann kynntist Dátum vel og fór með þeim í hringferð í kringum landið. Þar kynntist hann Rúnari Gunnarssyni sem oft hefur verið kallaður fyrsta íslenska poppstjarnan. Rúnar var alltaf hýr á brá og glaðbeittur og það var mikið áfall fyrir Þorstein og aðra vini hans þegar Rúnar lést með afar sorglegum hætti en hann fyrirfór sér ungur. „Á meðan hann var í Dátum var hann hress og glaðsinna. Hann átti kærustu í Reykjavík og eignaðist son en þetta hefur endað öðruvísi en ætlað var. Upp úr 1970 fór að halla undan fæti og poppdraumurinn varð að engu. Sorglegt,“ segir hann alvarlegur. 

Gægðist út um gluggann á Ísafirði og samdi lag

Þorsteinn hóf samstarf með sveitunga sínum Gunnari Þórðarssyni og samdi texta fyrir Hljóma og textann við lagið Glugginn sem Flowers fluttu. Textinn kom til hans þegar hann var staddur á Ísafirði, fékk að gista í herkastalanum á efstu hæð og virti fyrir sér bæinn út um gluggann. „Ég skrifaði lagið um það sem ég sá út um gluggann á Herkastalanum.“

Bassaleikari Led Zeppelin kunni að sletta úr klaufunum

Það var þó ekki nóg með að Þorsteinn þekkti allar stjörnurnar í poppbransanum á Íslandi og hefði tekið viðtal við Bítlana og Rolling Stones, hann hitti líka unga menn í hljómsveitinni Led Zeppelin sem komu hingað til lands árið 1970 sem aðalnúmer fyrstu Listahátíðar Íslands. Þorsteinn var að skrifa fyrir Tímann þá og var með sérstaka síðu á sunnudögum sem hét Með ungu fólki og fengu Led Zeppelin-menn að prýða hana. „Þeir héldu tónleika í Laugardalshöll. Við hittum þá á hótel Sögu þar sem þeir áttu að dvelja og mér fannst þeir stórir upp á sig,“ segir Þorsteinn. Eftir tónleikana héldu þeir teiti á Las Vegas á Grensásvegi sem Þorsteini var auðvitað boðið í. „Það var drukkið og hlustað á músík og svona. Það var stuð á þessum stað og þarna voru þeir aðalkallarnir, Robert Plant og Jimmy Page, sem héldu sig úr af fyrir sig og voru ekki að drekka viskí eins og sumir.“ Ekki bar heldur mikið á trommuleikaranum John Bonham. Bassaleikarinn John Paul Jones kunni hins vegar að sletta úr klaufunum.  „Hann var í viskíinu og hann var hrókur alls fagnaðar á staðnum.“

Sömdu Immigrant song um íslensku miðnætursólina

Um klukkan þrjú um nóttina kemur eigandi staðarins og lýsir því yfir að partýið sé búið, nú þurfi þeir að yfirgefa staðinn. Þegar John Paul kom út var þeim brugðið að sjá að sumarsólin væri glampandi á himni og héldu þá að klukkan væri níu eða tíu um morguninn. „Vá, hvað tíminn er fljótur að líða hérna maður!“ Hrópaði hann upp yfir sig. „Það þurfti að láta hann vita að þetta væri miðnætursólin. Ekki löngu seinna kemur Immigrant song þar sem sagt er frá því er þeir fóru í ferðalag til landsins þar sem miðnætursólin skín og goshverirnir gjósa,“ segir Þorsteinn dreyminn.

Mikið stendur til hjá tónlistamanninum. Auk þess að halda tónleika á laugardaginn er plata væntanleg hjá Þorsteini og konu hans Fjólu Ólafsdóttur. En hvaða texta frá ferlinum ætli Þorsteinn sé ánægðastur með í dag? „Er ég kem heim í Búðardal kemur sterkur inn,“ segir Þorsteinn stoltur. Tónleikarnir verða sem fyrr segir í Salnum í Kópavogi og þar flytja Matti Matt og Heiða Ólafs lög hans en Þorsteinn sjálfur segir sögur af ferlinum.

Rætt var við Þorstein Eggertsson í Rokklandi á Rás 2

Tengdar fréttir

Tónlist

Coldplay og daglega lífið