Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Elta tónlist með myndum og grafík

Mynd: Gabríel Benedikt Bachman / Menningin

Elta tónlist með myndum og grafík

03.04.2018 - 08:50

Höfundar

„Svo spinn ég af fingrum fram og það fer aðstæðum og áhorfendum hvort ég vilji hafa þetta árásargjarnt eða mjúkt og þetta er aldrei alveg eins,“ segir Gabríel Benedikt Bachmann, einn fremsti VJ landsins, en VJ-ar hanna myndræna umgjörð tónleika.

Sjónrænn þáttur tónleika verður sífellt stærri og svokallaðir VJ-ar, sem kalla mætti grafíska sviðshönnuði, skapa mynstur og myndir í takt við tónlist um leið og hún verður til.

Gabríel er einn reynslumesti VJ landsins, en hann hannar grafík fyrir hljómsveitrnar VÖK, Cyber og Fufanu ásamt Gísla Pálma. Markmið VJ-a er nokkuð skýrt í hans huga. „Við erum reynum að ýta undir upplifunina fyrir áhorfandann á tónlistarviðburðum.“Hann lærði grafíska hönnun og vinnur með hreyfimyndir og þrívíddarteikningar. Hann hóf feril sinn sem VJ með samstarfi við Gísla Pálma. „Ég bjó bara til ákveðið „brand“ fyrir hann, svona sjónrænt vörumerki sem virkar sem bakgrunnur fyrir hann og flyt það með honum og reyni að láta það passa við tónlistina og ná hans karakter út í ýktu „visjúali“,“ segir Gabríel Benedikt.

Mynd með færslu
 Mynd: Gabríel Benedikt Bachman - Menningin

Til að byrja með voru VJ-ar algengastir á raftónlistar- og hiphopptónleikum en það hefur breyst og nú má sjá myndskreytingar við flestar tegundir tónlistar. Gabríel myndskreytir nokkrar ólíkar tónlistartegundir. „Þetta hentar öllum tegundum tónlistar en það er mismunandi hvernig þú „performar“ þetta, það er hægt að búa til hvað sem er fyrir hvern sem er. Ég byrjaði í hiphoppi og þess vegna varð það mér eðlislægt, ég elska hiphopptakta það er mikið hægt að leika sér með það "læv" og elta tónlistina og það er svona mjög agresssíft, mikið af breytingum og mikið að gerast. VÖK er aftur á móti rólegri og maður þarf að vera svolítið þolinmóðari og bíða og byggja upp og svo kemur droppið í hverju lagi og þá geturðu farið að ýta á nokkra takka og breyta einhverju og síðan koll af kolli.“

Mynd með færslu
 Mynd: Gabríel Benedikt Bachman - Menningin

Á nýyfirstaðinni Sónarhátíð var áhersla lögð á sjónrænan þátt tónleika  og sérfræðingurinn Jónas Jóhannsson stýrði tveimur námskeiðum um efnið. Hann hefur hannað sjónlistaverk fyrir fjölda hljómsveita og tónlistarhátíða. Á Sónar mátti sjá fjölbreyttar myndskreytingar á tónleikum. Freya Sif Hestnes fer býsna óvenjulega leið að myndhönnun, hún vinnur mikið með skugga og ólíklegustu verkfræri til að framkalla sjónræna hlið tónlistarinnar. 

Á síðasta tónleikaferðalagi SigurRósar gegndi myndmál einnig mikilvægu hlutverki. Að baki sjónarspilinu voru tveir af fremstu ljósa- og sjónhönnuðum heims.