Ellefu staðfest smit

03.03.2020 - 12:27
Mynd: Fréttir / Fréttir
Tveir Íslendingar til viðbótar greindust í morgun með COVID-19 veiruna. Þessu greindi Víðir Reynisson, sérfræðingur hjá Almannavörnum Ríkislögreglustjóra, frá í hádegisfréttum. „Við vorum að fá tilkynningu um tvo til viðbótar í þessum hóp frá Ítalíu. Þannig að þetta eru ellefu í heildina sem eru staðfestir.“ Nú eru yfir 300 manns komnir í sóttkví.

Langflestir sem hafa smitast voru á sama hótelinu á Ítalíu. Einn kom úr ferðalagi frá Austurríki. „Við erum búin að greina ferðir hans og gera þessa smitrakningu. Við erum búin að greina ferðir hans í sólarhring áður en hann kemur heim. Hann kemur heim í gegnum Munchen í flugi og við erum búin að setja rúmlega 30 manns í sóttkví tengt því.“

Víðir segir að einkenni smits hjá manninum sem kom frá Austurríki hafi komið fram þegar hann var í Austurríki. Líklegast er að hann hafi smitast þar. Fjölskylda mannsins sýnir ekki einkenni. Sýni verða ekki tekin nema fólk sýni einkenni. 

„Hann var mjög ábyrgur, hafði samband strax og var ekki mikið að flækjast eftir að hann kom heim,“ segir Víðir um manninn sem kom frá Austurríki.

Yfir 300 í sóttkví

Nú eru yfir 300 manns í heimasóttkví, segir Víðir. Ekki er ljóst hversu mörg sýni hafa verið tekin. Þau hafa verið tekin víða á landinu og eru send inn til veirufræðideildar. „Við sjáum það ekki fyrr en í lok dags þegar við fáum yfirferð frá veirufræðideildinni hvað mörg sýni hafa verið tekin innan dagsins.

Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður sagði frá því í hádegisfréttum færslur hefðu sést á samfélagsmiðlum þar sem fólk stærði sig af því að sleppa við sóttkví. Hún benti á að það lægju sektir og allt að þriggja mánaða fangelsi við því að fara ekki að fyrirmælum landlæknis. 

„Það er samt algjört smáatriði miðað við afleiðingarnar sem þetta getur haft,“ segir Víðir. Hann benti á að þótt svo 80 prósent sem fá veiruna fái væg einkenni fái 20 prósent alvarlegri einkenni og fimm prósent verði alvarlega veik. Hann segir að hótanir um fangelsisrefsingu séu algjört aukaatriði við hlið þess að fólk smiti ef til vill einhvern sem beri þess aldrei bætur. „Sem samfélag þá erum við ekkert í þessu rugli. Við stöndum bara saman í þessu. Ef þú ert að koma frá skilgreindum svæðum þar sem eru fyrirmæli um að vera í sóttkví þá ertu bara í sóttkví. Taktu bara þátt í þessu. Þetta eru fjórtán dagar. Það er bara þinn skammtur til samfélagsins í dag.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi