Elísabet nálgast markið

01.10.2018 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Hlaupakonan Elísabet Margeirsdóttir á aðeins 28 kílómetra eftir af 400 kílómetra hlaupi í Góbí-eyðimörkinni í Kína. Alls hófu 60 keppendur hlaupið og er Elísabet sú langfyrsta af sjö konum sem taka þátt. Síðustu fregnir af henni voru góðar en margt getur enn gerst á síðustu kílómetrunum.

Birgir Sævarsson fylgist náið með stöðu mála í hlaupi Elísabetar og heyrir reglulega í henni hljóðið. Hann segir að hún hafi virkað í góðu standi í morgun þótt hún sé nú að hlaupa í eyðimerkurlandslagi og sandroki og því aðeins að berjast við aðstæður þessa stundina.

„En hún getur hlaupið vel og það er eiginlega ótrúlegt að heyra hvað henni líður vel miðað við það sem hún hefur gengið í gegnum síðustu sólarhringa. Hún hljómaði sterk."

Mikil dagsveifla er í hitastigi í eyðimörkinni og fór frostið allt niður í tíu gráður á tímabili. Birgir segir að þrátt fyrir að Elísabet hafi reynt að klæða sig sem mest hafi kuldinn níst inn að beini og vatn í brúsanum hennar frosið.

„Þetta gekk svolítið á hana en hún náði sér aftur á strik og fór ekkert niður andlega. Þetta hefur verið erfitt en hún hefur haldið haus allt hlaupið og það er ekkert slæmur tónn í henni. það hefur í raun allt gengið upp hingað til. Hún er góð að lesa í hvernig henni líður enda hefur hún gert svipaða hluti áður. Hún býr að því. En þótt henni finnist hún nú næstum komin í  mark getur margt gerst."

Hér má fylgjast með hlaupinu í rauntíma. 

 

Auður Aðalsteinsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi