Elísabet í mark eftir 400 kílómetra hlaup

01.10.2018 - 16:56
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Hlaupakonan Elísabet Margeirsdóttir er komin í mark í 400 kílómetra hlaupinu í Góbí-eyðimörkinni í Kína. Hún var fyrst kvenna í mark en alls hófu 60 manns hlaupið, þar af sjö konur. Hún er jafnframt fyrsta konan í heiminum sem klárar þetta hlaup á undir 100 klukkustundum.

Elísabet var níundi hlauparinn í mark og langfyrst af konunum. Hún hefur hlaupið í fjóra sólarhringa, bæði í eyðimerkursól og frosti og aðeins sofið í nokkrar klukkustundir á hvíldarstöðvum.

Birgir Sævarsson hefur fylgst náið með stöðu mála í hlaupi Elísabetar. Hann sagði í morgun að henni virtist líða vel miðað við það sem hún hefur gengið í gegnum síðustu sólarhringa. „Hún hljómaði sterk. Þetta hefur verið erfitt en hún hefur haldið haus allt hlaupið. Hún er góð að lesa í hvernig henni líður enda hefur hún gert svipaða hluti áður. Hún býr að því."

Í viðtali við fréttastofu í sumar sagði Elísabet spennandi að takast á við þetta hlaup. Aðstæður séu erfiðar og hlaupið mjög krefjandi. „En ég ætla ekki að vera hrædd við það heldur komast í gegnum það með góðum undirbúningi.“

Auður Aðalsteinsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi