Elías Pétursson ráðinn bæjarstjóri í Fjallabyggð

28.02.2020 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd: Fjallabyggð
Elías Pétursson, sveitarstjóri í Langanesbyggð, hefur verið ráðinn bæjarstjóri í Fjallabyggð. Hann tekur við af Guðrúnu Sif Guðbrandsdóttur, sem hefur sinnt störfum bæjarstjóra frá því að Gunnar Birgisson hætti í nóvember.

Elías Pétursson hefur starfað sem sveitarstjóri í Langanesbyggð frá því sumarið 2014. Hann óskaði sjálfur eftir lausn frá störfum og hættir strax.

„Mér var einfaldlega boðið starf í Fjallabyggð og ég ákvað að taka því,“ segir hann. „Mér er efst í huga mikið þakklætil til íbúa í Langanesbyggð, en um leið hlakka ég til nýrra starfa í Fjallabyggð.“

Í tilkynningu frá Langanesbyggð, þakkar Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, fyrir hönd sveitarstjórnar og íbúa í Langanesbyggð, Elíasi fyrir hans störf og óskar honum alls hins besta í framtíðinni. „Elías hefur verið ötull í starfi á þeim tæpum sex árum sem hann hefur starfað hjá sveitarfélaginu. Þrátt fyrir þessi skil munu opnast ný tækifæri fyrir báða aðila sem vonandi verða öllum til heilla,“ segir í yfirlýsingu oddvitans.

Í sömu tilkynningu þakkar Elías samstarfsfólki í sveitarstjórn og starfsfólki Langanesbyggðar fyrir ánægjulega samvinnu og samskipti. „Undanfarin að verða sex ár hafa verið á stundum krefjandi en ákaflega lærdómsrík, þroskandi og ánægjuleg, fyrir það allt þakka ég,“ segir í hans yfirlýsingu.

Elías Pétursson hefur störf sem bæjarstjóri í Fjallabyggð 9. mars.