Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Eldum rétt segir Eflingu hafa hafnað sáttum

07.07.2019 - 10:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í tilkynningu frá Eldum rétt vegna máls er varðar starfsmenn sem fyrirtækið leigði frá starfsmannaleigunni Menn í vinnu segir að verkalýðsfélagið Efling hafi hafnað tillögum um lausn á málinu.

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri verkalýðsfélagsins Eflingar sagði í gær að Eldum rétt hefði hafnað sáttatilboði þess en félagið hefur lagt fram kröfu og stefnu á hendur því. Samkvæmt tilboðinu átti fyrirtækið að greiða 4,4 milljónir króna vegna málsins, þar af þrjár milljónir í miskabætur. 

Einlægur vilji fyrirtækisins sé fyrir því að standa undir  keðjuábyrgð sem notendafyrirtæki samkvæmt lögum um starfsmannaleigur. Efling hafi tekið skýrt fram að engin önnur lausn væri til að ljúka málinu.

Umræddir starfsmenn unnu einungis í fjóra daga hjá fyrirtækinu að sögn Kristófers Júlíusar Leifssonar framkvæmdastjóra þess.

Fjögur fyrirtæki sem eru sögð hafa keypt vinnu af starfsmannaleigunni Menn í vinnu fengu kröfu frá Eflingu með vísun til um keðjuábyrgð. Einungis Eldum rétt féllst ekki á kröfuna og fyrirtækinu því stefnt.

Buðu Eldum rétt að greiða rúmar fjórar milljónir

Í tilkynningu Eldum rétt segir að málið snúist í raun um hvort Mönnum í vinnu hafi verið heimilt að draga kostnað vegna þjónustu frá launum, sem þeir nutu og fyrirframgreidd laun sem fyrirtækið segir óumdeilt að þeir hafi fengið.

„Endurgreiðsla á þessum fjárhæðum til einstaklinganna felur í sér tvígreiðslur til þeirra og ákvæði laga um keðjuábyrgð nær ekki til slíkra fjárkrafna. Stærsti hluti kröfunnar var um miskabætur vegna aðstæðna og aðbúnaðar starfsmannanna. Vert er að taka fram að ekki er um að ræða sömu starfsmenn Manna í vinnu ehf. og komið hafa fram í fjölmiðlum hingað til“, segir í tilkynningunni.

Efling ekki veitt upplýsingar

Þar sem athugasemdir verkalýðsfélagsins um aðstæður starfsmanna hafi ekki beinst að aðstæðum eða starfsumhverfi hjá Eldum rétt óskaði fyrirtækið eftir frekari upplýsingum frá umræddum starfsmönnum. Þeir hafi staðfest við Eldum rétt að þeirra hagir væru í lagi. Efling hafnaði að sögn fyrirtækisins að veita frekari upplýsingar.

„Engin gögn liggja því til grundvallar að starfsmenn sem unnu hjá Eldum rétt hafi verið látnir sæta ósæmilegri meðferð eða brotið gegn réttindum þeirra, eins og látið er liggja að í tilkynningu Eflingar. Efling hafnaði öllum frekari tillögum Eldum rétt til að ljúka málinu á fundinum.“

Fyrirtækið sendi tölvupóst til Viðars þar sem samningsvilji þess var ítrekaður og gert grein fyrir afstöðu Eldum rétt.

„Það sé einlægur vilji Eldum rétt að standa undir keðjuábyrgð sem notendafyrirtæki samkvæmt lögum um starfsmannaleigur beri.“