Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eldflaugaskotin „viðvörun til Suður Kóreu“

26.07.2019 - 03:29
epa07738873 South Korean people watch breaking news of North Korea's missile launch, at Seoul Station in Seoul, South Korea, 25 July 2019. According to South Korea's military, North Korea on 25 July fired two short-range missiles toward the East Sea.  EPA-EFE/KIM CHUL-SOO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kim Jong-un, einræðisherra í Norður Kóreu, segir eldflaugatilraun sem gerð var þar í landi í gær viðvörun til nágrannanna í Suður Kóreu. Segir hann Norður Kóreu ekki eiga annars úrkosti, eins og staðan sé í dag, en að þróa og smíða öflug vopn, landi og þjóð til varnar. Þetta kom fram í norður kóreska ríkissjónvarpinu í morgun, segir í frétt AFP.

Njósnir bárust af því í gær að Norður-Kóreumenn hefðu skotið tveimur skammdrægum stríðsflaugum á loft, sem enduðu för sína í Japanshafi eftir um 430 kílómetra flug. Voru þetta fyrstu eldflaugaskot þeirra síðan í maí. „Við getum ekki annað en haldið sleitulaust áfram að þróa ofuröflug vopnakerfi, til að verjast þeirri hugsanlegu og raunverulegu ógn sem steðjar að öryggi lands okkar,“ hefur norður-kóreska sjónvarpið eftir Kim. Er hann sagður hafa haft frumkvæði að eldflaugatilrauninni og fylgst grannt með framkvæmd hennar. 

Fram undan eru sameiginlegar heræfingar suður-kóreska og bandaríska hersins á Kóreuskaga. Slíkar æfingar fara reglulega fram og eru stjórnvöldum í PjongJang mikill þyrnir í augum. Í fréttum ríkissjónvarpsins var hvorki minnst á Bandaríkin né Donald Trump, Bandaríkjaforseta, en spjótunum einungis beint að stjórn Suður-Kóreu.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV