Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

El Chapo dæmdur í lífstíðarfangelsi

17.07.2019 - 14:44
FILE - In this Jan. 8, 2016 file photo, Mexican drug lord Joaquin "El Chapo" Guzman is escorted by army soldiers  to a waiting helicopter, at a federal hangar in Mexico City, after he was recaptured from breaking out of a maximum security prison
 Mynd: AP
Mexíkóski glæpaforinginn Joaquín Guzmán, kallaður El Chapo, var dæmdur í lífstíðarfangelsi í dag. Réttarhöldin hafa staðið síðustu mánuði í New York en Chapo var meðal annars fundinn sekur um eiturlyfjasmygl og peningaþvætti. Hann hefur verið í einangrun í um tvö og hálft ár og áður en dómur var kveðinn upp sagði Chapo að einangrunarvistin jafngilti andlegum pyntingum allan sólarhringinn.

El Chapo var í febrúar dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir alríkisdómstól í New York. Hann var meðal annars sakaður um að hafa starfrækt glæpasamtökin Sinaloa, sem hafa verið þau umfangsmestu í eiturlyfjasmygli til Bandaríkjanna um árabil. Kviðdómendum var bannað að fylgjast með fréttaflutningi af málinu og lögmenn El Chapo kröfðust þess að málið yrði tekið upp að nýju því þeir hefðu ekki fylgt þeim fyrirmælum. Dómari synjaði beiðninni en þá var Chapo ákærður í tíu liðum, meðal annars fyrir að stýra glæpasamtökunum, framleiðslu og dreifingu kókaíns og peningaþvætti. 

Hann mun líklega afplána dóm sinn í Florence-fangelsinu í Colarado sem hefur stundum verið kallað „Alcatraz klettanna“ í höfuðið á alræmdu fangelsi á San Francisco-flóanum.  Þar eru geymdir glæpamenn sem eru taldir ógn við þjóðaröryggi, menn eins og Theodore Kaczynski, sem gengur undir nafninu Unabomber, og Terry Nichols sem var sakfelldur fyrir aðild sína að hryðjuverkunum í Oklahoma.  „Þessi staður er hugsaður til að þagga niður í okkur og hafa stjórn á okkur. Þetta er andlegur pyntingarklefi,“ hefur breska blaðið Guardian eftir Shain Duka sem sat um tíma í fangelsinu.

 

Jeffrey Lichtman, einn lögmanna hans, segir líklegt að dómnum verði áfrýjað, en málsmeðferðin hafi verið í skötulíki og kviðdómendur hafi ekki fylgt fyrirmælum um að fylgjast ekki með umfjöllun um réttarhöldin í fjölmiðlum.  Brian Benckowski einn saksóknara fagnaði niðurstöðunni og sagði að sömu örlög biðu þeirra sem hafi aðstoðað Chapo við að flytja mörg hundruð tonn af eiturlyfjum frá Mexíkó til Bandaríkjanna.