Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ekki vissir um hvað er að gerast við Heklu

26.03.2013 - 16:21
Hamfarir · Innlent · Hekla · Suðurland
Mynd með færslu
 Mynd:
Jarðvísindamenn eru ekki vissir um hvað er að gerast við Heklu. Þeir sjá ekki merki um að gos sé yfirvofandi en jarðskjálftavirknin þar er óvenjuleg. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir að jarðskjálftar hafi yfirleitt verið fyrirboði eldgoss í Heklu.

„Það hefur verið þannig frá því menn fóru að mæla að það er sárasjaldgæft að það séu skjálftar í Heklu öðruvísi en að það sé rétt fyrir gos. Nú er búið að þétta allt mælanet á Suðurlandi og náttúrlega i kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli þá er búið að þétta mjög í kringum Mýrdalsjökul og svo er verið að þétta í kringum Heklu líka sem þýðir að kerfið er líka orðið viðkvæmara. Við sjáum miklu meira heldur en var áður,“ segir Ármann. Þar af leiðandi sjáist fleiri skjálftar. Nokkrir þeirra séu stærri en 1,5 en enn sem komið er séu engar vísbendingar um að það sé kvika á leiðinni að yfirborðinu.