Ekki verkfallsbrot að birta fréttir í verkfalli

13.02.2020 - 17:35
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Útgáfufélag Morgunblaðsins var sýknað af nær öllum ásökunum um verkfallsbrot í verkfalli blaðamanna 8. nóvember í Félagsdómi í dag. Blaðamannafélag Íslands stefndi Árvakri vegna þeirra frétta sem birtust á vefnum mbl.is á meðan verkfallið stóð yfir.

Aðeins er viðurkennt að Árvakur hafi brotið gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur með því að fela Baldri Arnarsyni, blaðamanni sem er félagi í VR, að sinna fréttaskrifum á meðan verkfallið stóð. Það þykir ekki hafa verið verkfallsbrot að birta tímastilltar fréttir á vefnum sem ritaðar voru áður en verkfallið hófst.

Í stefnu Blaðamannafélagsins voru níu blaðamenn tilgreindir og sagðir hafa brotið verkfallið með því að birta fréttir á vefnum mbl.is á meðan verkfallið stóð. Farið var fram á að Árvakur greiddi sekt og allan málskostnað.

Árvakur gerði þá gagnkröfu að verkfallið yrði dæmt ólögmætt en Blaðamannafélagið var sýknað af þeirri kröfu. Eins og áður segir var Árvakur sýknað af nær öllum kröfum Blaðamannafélagsins. Málskostnaður fellur niður.

23 fréttir birtar í verkfallinu

Á meðan verkfallinu stóð frá klukkan 10 árdegis til klukkan 14 síðdegis 8. nóvember birtust 23 fréttir á mbl.is sem Blaðamannafélagið taldi að hafi verði í trássi við verkfallið. Haraldur Jóhannessen, ritstjóri og framkvæmdastjóri Árvakurs, skrifaði fimm fréttir á sama tímabili á vefinn.

Einhverjar þeirra frétta sem birtar voru höfðu skrifaðar í vefumsjónarkerfið áður en verkfallið hófst klukkan 10 og stilltar til birtingar á verkfallstímanum. Haraldur sagði í skýrslu sinni að algengt væri að fréttir væru tímastilltar fram í tímann á vefnum.

Haraldur hafi hins vegar litið svo á að vegna þess að Baldur Arnarson væri félagi í VR þá hafi hann mátt skrifa fréttir á meðan vinnustöðvuninni stóð. Félagsdómur féllst ekki á það. Starfsmenn og verktakar sem ekki voru félagar í Blaðamannafélaginu voru kallaðir til vinnu á mbl.is þennan dag, vegna verkfallsins, sagði Haraldur.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, vildi ekki tjá sig um niðurstöðu Félagsdóms fyrr en hann væri búinn að kynna sér dóminn.

Ekki hefur verið haldinn samningafundur Blaðamannafélagsins og Samtaka atvinnulífsins síðan í desember og ekki hefur verið boðað til nýs fundar.

Höfundur þessarar fréttar er félagi í Blaðamannafélagi Íslands.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV