Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki verið meira af lunda í Eyjum í mörg ár

31.05.2019 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Um helgina hefst árleg vöktun lundastofnsins þegar náttúruvísindamenn hefja rannsóknarferð um landið. Eftir mjög döpur ár í stærstu lundabyggð landsins í Vestmannaeyjum virðist stofninn þar á uppleið. Lundinn étur sandsíli og er því sterkastur þar sem mikið er af síli.

Loðnan var helsta fæða lundans, einkum fyrir norðan land, en segja má að hann hafi á síðustu árum breytt matseðlinum. Eftir að ásand loðnunnar versnaði varð lundinn alfarið háður sandsíli til átu. Og þar sem sílið dafnar vel eru lundabyggðirnar sterkar og rannsóknir hafa sýnt að lundinn verði að hafa aðgang að sandsíli til að varp takist.

Besta vor lundans í Eyjum síðan fyrir aldamót

Lundastofninn er sterkastur á norðanverðu landinu, frá Ísafjarðardjúpi austur á Borgarfjörð eystra. Sunnar á Austfjörðum er ástandið lakara. Ástandið í Vestmannaeyjum hefur lengi verið mjög dapurt en Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrstofu Suðurlands, segir að þar sé lundinn á uppleið. Í fyrra hafi til dæmis verið besta pysjuár í Eyjum frá því farið var að skrá pysjubjörgun árið 2003. Og ekki hafi sést meira af lunda í brekkunum í Eyjum að vorlagi síðan fyrir aldamót. „Hinsvegar gerðist það nú líka að helmingurinn af ungunum drapst í sumar en það sem eftir lifið náði þó á væng. Og það sem eru kannski ennþá betri fréttir er að þeir voru  frekar þungir, eða í eðlilegri þyngd. Og það skiptir eiginlega jafn miklu máli eins og fjöldinn.“

Rannsóknir á 12 stöðum i sumar  

Árlegt verkefni við vöktun lundastofnsins hefst í Akurey á Kollafirði á sunnudag og þaðan fara vísindamenn rangsælis um landið og stoppa á tólf stöðum. Og Erpur segir að á Vesturlandi sé mesta breytingin, því eftir mörg döpur ár hjá lundanum þar sjáist nú mikið af síli og lundinn sé að styrkjast.

Lundinn áfram sterkur fyrir norðan

En hann segir erfitt að spá fyrir um hvað kemur út úr lundarannsóknum þessa árs. „Ég hugsa að þetta verði nú svipað fyrir norðan og þar, en því miður held ég að þetta verði ekki alveg nógu gott fyrir austan. Einna mest virðist spennan vera fyrir Vesturlandi. Hvort sílið haldi velli, þessi framleiðsla þar sem var orðin nokkuð þokkaleg. Svo er það hvað gerist í Eyjum. Og ef þó væri ekki nema þar væri eitthvað svipað eins og í fyrra þá væri það mun betra en hefur oft verið undanfarin áratug eða svo, eða 15 ár."

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV