„Ekki vera eins og Dixie Chicks“ 

Mynd: EPA / EPA

„Ekki vera eins og Dixie Chicks“ 

07.03.2020 - 13:36

Höfundar

Þær eru Grýlusagan úr kántríheiminum sem allir vildu forðast. Í dag eru þær meðal áhrifamestu tónlistarmanna Bandaríkjanna þrátt fyrir að hafa ekki gefið út nýtt lag í 14 ár – þar til á fimmtudaginn var.

Í heimildarmyndinni Ms. Americana á Netflix ræðir söngkonan Taylor Swift um hvernig henni var ráðið frá því að að tjá skoðanir sínar opinberlega. Allir peningamennirnir í kringum hana sögðu: „Ekki vera eins og Dixie Chicks.“ 

Atriðið í myndinni snýr að augnablikinu þar sem Swift snýst gegn þessum ráðum. Hágrátandi útskýrir hún fyrir föður sínum að hún verði að segja eitthvað. Hún geti ekki fagnað aðdáendum sínum, konum, minnihlutahópum og samkynhneigðu fólki, ef hún talar ekki fyrir réttindum þeirra þegar þeir eiga undir högg að sækja. Hún vill vera réttu megin sögunnar, segir hún.

Faðir hennar mótmælir. Hann óttast um öryggi hennar. Og hann hefur nokkuð til síns máls. Síðast þegar kántrístjarna af hennar stærðargráðu tjáði sig opinberlega um pólitík var ekki nóg með að henni væri úthýst af útvarpsstöðvum. Henni, eða öllu heldur þeim, bárust grófar og ítrekaðar líflátshótanir.

Dixie Chicks er upprunin í Texas og hefur verið starfandi í einhverri mynd frá 1989. Frá 1995 hefur hópurinn samanstaðið af systrunum Martie og Emily Erwin auk söngkonunnar Natalie Maines og þremur árum síðar, árið 1998 slóu þær fyrst í gegn, með plötunni Wide Open Spaces. Það ár, seldu þær fleiri geisladiska en öll önnur starfandi kántríbönd Bandaríkjanna til samans. Næstu árin féllu metin áfram og þær sópuðu til sín verðlaunum, bæði innan kántrígeirans og utan. 

Þær voru gagnrýnar, þær tóku áhættur og þrýstu á þá ramma sem kántrí tónlistargeirinn setti listamönnum sínum, en þær héldu samt velli. Þær klæddu sig ekki eins og kúrekastelpur en þær spiluðu mjög hefðbundna kántrítónlist. Þó efniviðurinn væri ekki alltaf öllum að skapi voru þær meistarar í einstakri sagnahefð kántrísins, þar sem textarnir innihalda ekki bara sundurslitnar hugmyndir eða myndhverfingar heldur eru narratív. Hafa upphaf, miðju og endi. Gott dæmi um það er lagið Travelin Soldier, um hermann sem deyr í Víetnam og engin saknar nema ung stúlka sem hann ræddi við á matsölustað áður en hann fór. 

Lagið var sjötta lag Dixie Chicks til að komast í efsta sæti Billboard listans yfir Country tónlist og jafnframt, það síðasta. Af hverju? Jú, af því að kvöld eitt, árið 2003 var Natalie Maines að kynna lagið á tónleikum sveitarinnar í London, þegar hún bætti við smá klausu um þáverandi forseta Bandaríkjanna, George Bush yngri.

Bara svo þið vitið, við erum á góðu hliðinni með ykkur. Við viljum ekki þetta stríð, þetta ofbeldi og við skömmumst okkar fyrir að forseti Bandaríkjanna sé frá Texas.

Ummælin urðu fóðruðu grasrótarandstöðu við Dixie Chicks. Útvarpsstöðvum bárust þúsundir símtala þar sem hlustendur heimtuðu að sveitin væri tekin af spilunarlistum. Brátt fóru útvarpsstöðvarnar sjálfar að kalla eftir sniðgöngu á tónleikum þeirra. Ein bauð fólki að skila inn hljómplötum þeirra og keyrði svo yfir þær með valtara. Natalie Maines var ítrekað hótað lífláti og líkamsmeiðingum, jafnvel á opinberlega eins og heyrist hér í síðasta brotinu þar sem fréttamaður segir hana og Erwin systurnar eiga skilið að vera beittar ofbeldi fyrir orð hennar. Aðeins fáeinum mánuðum áður höfðu þær sungið bandaríska þjóðsönginn á Ofurskálinni, voru á hátindi ferilsins. Viðsnúningurinn var algjör.

Í fyrstu baðst Natalie Maines afsökunar en um mánuði seinna, í viðtali við Diane Sawyer, skipti hún um gír og sagðist stolt af upprunalegu yfirlýsinganni. Í kjölfarið birtust Dixie stúlkurnar naktar á forsíðu tímaritsins Entertainment Weekly með hatursyrði á við „svikarar, druslur, og englar Saddams“ á víð og dreif um líkama sína. En inn á milli voru einnig önnur orð, orðin sem þær stallsystur ákváðu að binda ímynd sína við. Orð eins og „hetjur, málfrelsi og hugrekki.“

Hróður þeirra barst enda víða. Fjölmargir studdu málstað Dixie stúlknanna og/eða rétt þeirra til málfrelsis. Þeirra á meðal voru frægir tónlistarmenn eins og Bruce Springstine og Madonna en flestir kántrítónlistarmenn ýmist ýttu undir sniðgönguna og hatrið eða þögðu þunnu hljóði

Eins og samfélagsmiðlakrakkarnir segja í dag, voru Dixie Chicks „cancelled“.

Mynd með færslu
 Mynd: Entertainment Weekly - Forsíða
Forsíða Entertainment Weekly var hluti af herferð Dixie Chicks til að endurheimta orðspor sitt.

Og kannski hefðu þær bara verið það áfram,  fjarlæga Grýlusagan úr kántrígeiranum um alla framtíð, ef ekki hefði verið fyrir þeirra næstu plötu, árið 2006 sem innihélt „Not ready to make nice“.

Lagið snýst um réttláta reiði. Um að vera ekki tilbúin að sættast, svona eins og góðu stelpurnar eiga að gera. Og á sama tíma og flestir eiga að geta tengt við þær tilfinningar sem Maines tjáir í laginu er textinn svo hárnákvæmur að enginn fær um villst að þarna er fjallað um uppþotið 2003, um líflátshótanir, hatur og þá kröfu að hún haldi kjafti og syngi.

Kántrístöðvarnar í Bandaríkjunum hunsuðu lagið og plötuna, Taking the Long way, en það kom ekki að sök. Hún seldist vel, toppaði vinsældalista og sveitin vann fimm Grammy verðlaun, meðal annars fyrir plötu ársins og lag ársins. 

En svo kom pása og sveitin lagðist í hýði.

Erwin systurnar gáfu út tónlist án Maines en jú, sveitin kom fram við og við. Fór á tvö tónleikaferðalög og kom meira að segja einu sinni fram með Beyoncé. En það eru hápunktarnir á síðustu 14 árum. Hún hafði ekki gefið út neina nýja tónlist á eigin vegum, þar til síðastliðinn fimmtudag.

Með „Not ready to make nice“ festu Dixie Chicks sig í minni fólks sem sveitin sem neitaði að láta segja sér fyrir verkum. Þær voru konur með skoðanir, fullar af réttlátri reiði - ekki bara gegn Bush og íraksstríðinu - heldur gegn bransa sem heldur konum niðri. Þau skilaboð áttu kannski erfitt uppdráttar þá, svo skömmu eftir árásirnar á tvíburaturnanna þegar ekki mátti svo mikið sem blása á þjóðarstolt Bandaríkjamanna - en á tímum #metoo hreyfingarinnar og andstöðu við annan Bandaríkjaforseta, Donald Trump eru Dixie Chicks einhverskonar original gangsters. Konurnar sem neituðu að láta vaða yfir sig. Jafnvel, fyrir mun fleirum en áður, konurnar sem höfðu rétt fyrir sér.

Og það er ekki endilega kúl að fíla kántrí tónlist. En það er að verða kúl að fíla Dixie Chicks. Í Bandaríkjunum allavega. Titillagið af plötunni Gaslighter rígheldur í réttlátu reiðina. Titillinn er orð sem er tiltölulega nýkomið í almenna notkun vísar í manneskju sem sáir fræjum í huga annars og fær viðkomandi til að efast um eigin upplifanir. Það er, rétt eins og „Not ready to make nice“, lag sem margir geta tengt við en er samt fullt af nákvæmum lýsingum um bitran skilnað Natalie Maines við eiginmann sinn. Svo marsera þær í myndbandinu í einskonar einkennisbúningum, eins og til að gefa persónulegu innihaldinu pólitíska vídd. Aðdáendur sveitarinnar eru yfir sig hrifnir og sælir eftir langa eyðimerkur göngu en enn á eftir að koma í ljós hvaða þýðingu platan hefur í raun.

Það skiptir kannski ekki öllu máli hvort kántríunnendur taka Dixie Chicks í sátt. Það sem meira máli skiptir, er hvort þær geta tekið sér leiðtogastöðu í feminískri bylgju samtímans eða þeim verði að nægja að vera axlirnar sem hófu yngri konur nær glerþakinu. Skiptir meira máli hvað þær sögðu þegar þær voru ungar og reiðar en nú þegar þær eru eldri og reiðar?

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

Taylor Swift og bottinn sem varð nasisti

Tónlist

„Núna er kántrítónlistin aftur orðin kúl“

Tónlist

Fullur kántrítankur hjá Hank & Tank

Tónlist

John Grant og Orville Peck á Iceland Airwaves