Ekki um annað að ræða en að LSH geti tekið við slösuðum

14.01.2020 - 16:38
Mynd: Ragnhildur Thorlacius / RÚV
Guðrún Lísbet Níelsdóttir, verkefnastjóri fyrir viðbragðsáætlanir Landspítalans, segir að sjúkrahúsið verði að geta tekið á móti slösuðum úr hópslysi þrátt fyrir krefjandi aðstæður á Landspítalanum. Slys hafi orðið á undanförnum árum sem spítalinn hefði átt að geta ráðið við án þess að kalla út auka mannskap.

Rætt var við hana í Samfélaginu í dag og er hægt að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

Guðrún heldur erindi ásamt fleirum á fimmtudag um þolmörk Landspítala í hópslysum,  bráðaviðbrögð og áhrif á flæði sjúklinga eftir tvö rútuslys; annars vegar á Mosfellsheiði 25. október 2016 og hins vegar á Suðurlandi 27. desember 2017. Viðbragðsáætlun Landspítala var virkjuð í báðum tilvikum. Í lýsingu á erindinu kemur fram að rúmlega 100 prósent nýting hafi verið á legurýmum á lyf- og skurðlækningadeildum þegar slysin urðu og fjöldi sjúklinga staddur á bráðamóttökum. Rýming bráðamóttöku og innlagnir á legudeildir hafi gengið vel. 

Rútuslys varð síðast á föstudag þegar rúta með 40 læknanemum valt við bæinn Öxl, sunnan við Blönduós. Hjúkrunarfræðingar á fjórða ári voru í næstu rútu fyrir aftan og fóru strax í að hlynna að slösuðum þar til aðstoð barst.

Guðrún segir að hópslys sé skilgreint sem svo stórt slys að kalla þurfi út viðbótar mannskap og stjórnstöð til að samhæfa sjúkraflutninga. „Það hafa orðið slys á undanförnum árum sem í gegnum tíðina við hefðum átt að geta tekist á við án þess að kalla út auka viðbragð. En við höfum samt þurft að gera það. Spurningin er sem sagt ekki getum við tekið við heldur hvernig getum við tekið við því við þurfum að taka við. Það er ekkert um neitt annað að ræða.“  

Geta fengið aðstoð að utan 

Guðrún segir að Landspítalinn sé með samninga erlendis um að hingað berist aðstoð ef spítalinn ræður ekki við aðstæður en sú aðstoð skili sér ekki á augabragði. Spítalinn þurfi því að geta tekist á við atburðinn í marga klukkutíma og jafnvel einhverja daga án utanaðkomandi aðstoðar. Aldrei hafi þurft að koma til þess að þjónustustigið hafi verið lækkað vegna hópslysa eða að heilbrigðisstarfsfólk hafi þurft að velja á milli sjúklinga, en starfsfólk óttist að til þess geti komið.  

„Ef við þurfum að velja á milli einstaklinga hver á að fá meðferðir, hver getur farið í skurðaðgerð annað hvort verðum við að taka þennan eða þennan. Er það þessi sem kemst í tölvusneiðmyndina en þessi ekki. Verður þessi að bíða frammi á meðan við sinnum þessum og erum við að taka réttar ákvarðanir,“ segir hún. 

„Að við færum í algert krísuástand þar sem við þyrftum að takmarka meðferðir, það eru þesskonar ákvarðanir sem ég er að meina. Það vill enginn standa frammi fyrir þeim raunveruleika og auðvitað óttast það allir að það komi til þess. Ég geri það allavega.“