Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki tíminn til að taka þátt í stórveldabrölti

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Mótmælendur hafa safnast saman á Austurvelli vegna heimsóknar Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Varaforsetinn hefur helst verið gagnrýndur fyrir mjög íhaldssamar skoðanir sínar, viðhorf sín til loftslagsmála, kvenna og fyrirlitningu í garð hinsegin fólks. Mótmælendur skörtuðu sumir hverjir regnbogalitunum. Einnig mátti sjá skilti herstöðvaandstæðinga með áletruninni „Ísland úr NATO - Herinn burt!“

Mótmælendur klöppuðu fyrir fyrirtækjum og einstaklingum sem flögguðu regnbogafánanum í grennd við Höfða, þar sem Pence fundaði í dag. 

Töluðu gegn stefnu Bandaríkjastjórnar

Fimm ávörpuðu mótmælendur. Hildur Knútsdóttir, rithöfundur og umhverfisverndarsinni, talaði gegn stefnu Pence og stjórnarinnar í loftslagsmálum og talaði fyrir jöfnuði. Hún sagði að ríkisstjórn Íslands hefði mikilvægari hlutum að gegna en að tala við risaeðlur á borð við varaforsetann.

Isabella Rivera, innflytjandi frá Bandaríkjunum og aðgerðasinni hjá samtökunum No Borders, talaði um innflytjendastefnu Bandaríkjanna og aðgerðir þeirra gegn flóttafólki. Hún sagði að stjórn Trumps hefði aukið ofbeldi gegn flóttamönnum og innflytjendum, og gert það verra. Aðstæður fyrir flóttamenn væru hræðilegar um heim allan, þar á meðal, og ekki síst, hér á landi. 

„En hvaða hernaðarumsvif eru það sem við þurfum virkilega að hafa áhyggjur af?“

Randi Stebbins, mannréttindalögfræðingur frá Bandaríkjunum, spurði: „hversu hræddur þarf maður að vera þegar maður heimsækir friðsælasta land í heimi, með svona stríðstól?“ Þá átti hún við B2-sprengjuvélarnar sem komu til Íslands fyrir helgi. Sprengjuvélarnar geta borið kjarnorkusprengjur og það hefur verið gagnrýnt, ekki síst af þingmönnum.

Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, sagði að Pence hafi rætt um viljann til þess að stemma stigu við auknum umsvifum Rússa og Kínverja á norðurslóðum. „En hvaða hernaðarumsvif eru það sem við þurfum virkilega að hafa áhyggjur af?“ spurði hann. Hann sagði að Bandaríkjaher hefði nú lagst í milljarða króna framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir kafbátaleitarflugvélar sínar. Þá eigi að vera hér aðstaða fyrir meira en þúsund hermenn. Bara í síðustu viku hafi B2-sprengjuvélarnar komið til landsins til að æfa sérstaklega eldsneytistöku.

„Er þetta virkilega tíminn til að við blöndum okkur aftur í valdabaráttu stórveldanna? Hvað þá þegar þeim er stýrt af eins óútreiknanlegum mönnum og Trump og Pence,“ sagði hann. Þau beri bersýnilega litla virðingu fyrir hagsmunum lítilla ríkja í norðri. Trump hafi sýnt það með vilja sínum til að kaupa Grænland. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - Aðsend mynd

Stuðningur við mannréttindi yfirvarp fyrir hernaðarbrölt

María Helga Guðmundsdóttir, fyrrverandi formaður Samtakanna '78, gagnrýndi stefnu og viðhorf varaforsetans til hinsegin fólks. María vitnaði í bandarískt plagg, sem hún sagði að kallaðist Samþætt landsáætlun um Ísland, og hefði að geyma yfirlýst og opinber markmið Bandaríkjanna um samskipti við Ísland. 

Þar kæmi fram að vegna hernaðarlegs mikilvægis Íslands, og legu þess á norðurslóðum, væri nauðsynlegt að Bandaríkin hefðu mikil umsvif hér á landi og Íslendingar væru jákvæðir í garð bandarískrar menningar, samfélags, stjórnmála og gilda. Tryggja ætti að Íslendingar álitu Bandaríkin sinn helsta bandamann. Því ætti starfsemi sendiráðsins að undirstrika gildi, svo sem valdeflingu kvenna, tjáningarfrelsi, hátíð hinsegin fólks, réttindi fatlaðs fólks og fjölbreytni.

Hér hefði Bandaríkjastjórn borið kennsli á góð gildi sem hún telji að höfði til Íslendinga, sagði María. Vilji stjórnin hins vegar að Íslendingar hafi jákvæð viðhorf til bandarísks samfélags þurfi að byrja á því að lifa í samræmi við þau gildi heima hjá sér. „Sjáið sóma ykkar í því að beita utanríkisstefnu ykkar heima fyrir og vinna að réttlæti fyrir hinsegin systkini okkar í Bandaríkjunum,“ sagði hún. Bandaríkjastjórn ætti að horfa heim og taka til í sínum eigin garði.

Yfirvöld ættu ekki að voga sér að nota falskan stuðning við mannréttindi sem yfirvarp fyrir hernaðarbrölt. „Við sjáum í gegnum það og viljum ekki hafa neitt með það að gera.“ 

Þingmaður meðal mótmælenda

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, var einn mótmælenda á Austurvelli. Hann segir mikilvægt fyrir þingmenn að hlusta.

„Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur á þingi að hlusta á þau sjónarmið sem hérna koma fram. Hérna talar fólk fyrir ýmsum málstað sem núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum standa gegn, jaðarsettir hópar og fólk sem er að berjast gegn hamfarahlýnun. Þetta er eitthvað sem við eigum að styðja eins og við getum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Partý gegn Pence

Á Facebook-viðburði mótmælanna, sem ber yfirskriftina Partý gegn Pence, segir að fjölmörgum Íslendingum misbjóði stefna Pence og stjórnarinnar í Hvíta húsinu, til dæmis í í friðar- og afvopnunarmálum, kvenfrelsismálum, málefnum hinsegin fólks, á sviði umhverfisverndar og framkomu við flóttafólk. Því hafi útifundur verið skipulagður þar sem fólk geti tjáð afstöðu sína. Mótmælunum seinkaði aðeins, en óvenjumiklar umferðartafir voru á höfuðborgarsvæðinu vegna farar Pence til Keflavíkur. 

Pence hefur verið gagnrýndur fyrir mjög íhaldssamar skoðanir sínar og komu hans til landsins var mótmælt áður en hann steig fæti á landið. Til dæmis hefur hann beitt sér gegn réttindum samkynhneigðra. Þá segir hann loftslagsbreytingar bull og hnattræna hlýnun goðsögn. „Ég er kristinn, íhaldsmaður og Repúblikani, í þessari röð.“ Þannig lýsir Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sjálfum sér.