Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Ekki tillitssemi að sturta óþef yfir saklaust fólk“

22.12.2019 - 20:02
Mynd:  / 
Skötuveislur eiga ekki heima í fjölbýlishúsum, að mati formanns Húseigendafélagsins. Kæst skata sé eins og hryðjuverkaárás á bragðlaukana. Almenna reglan sé að sýna nágrönnum að sýna tillitssemi.

Margir koma til með að háma í sig kæsta skötu á morgun Þorláksmessu og margir eiga eflaust eftir fussa og sveia yfir lyktinni og spyrja hvort eðlilegt sé að elda slíkt í fjölbýlishúsi.

„Það finnst mér ekki. Almennt gildir reglan um tillitssemi og umburðarlyndi og það er ekki tillitssemi að sturta svona óþef yfir saklaust fólk. Þetta er svona eins og hryðjuverkaárás á bragðlaukana, þetta er ekki matur, þetta er úldmeti og flokkað sem úrgangur samkvæmt öllum skilgreiningum. Þetta eru svona barbarískar veislur og bara hryllilegt, lyktin situr kannski í húsum fram eftir vori,“ segir Sigurður Helgi Guðjónsson formaður Húseigendafélagsins.

Hann segir fólk almennt geta leyft sér flest í hófi í sinni séreign, en það þurfi að taka tillit.

„Þú getur ekki sturtað svona óþef yfir sameigendurna bara  þegjandi og hljóðalaust. Svona skötusuða á heima einhvers staðar uppi á öræfum eða á annesjum eða fjarri siðaðra manna húsum.“

Hann segir að Húseigendafélaginu berist sögur af svona veislum. Margir spyrji sig hvort þetta sé ekki í lagi einu sinni á ári, en Sigurður Helgi segir það til dæmis ekki í lagi að ljúga, svíkja og brenna, bara af því að það sé einu sinni á ári. En hvað eiga þá skötuunnendur að gera?

„Þeir eiga náttúrlega að fara að borða hollan og almennilegan mat. En menn eru að reyna að sjóða þetta úti í bílskúr á grillum eða einhvers staðar utanhúss og reyna að tempra lyktina. Þetta er mikið að fara úr híbýlum manna inn á veitingahús og mötuneyti þar sem að góð loftræsting er og þetta veldur ekki svona nefbjóði.“

Hann segir ekki mikið um að húsfélög banni skötueldun, en húsfélög geti sett sér reglur um afnot séreigna, eins og til dæmis hvað varðar reykingar og tíðarandinn sé í átt að aukinni tillitssemi. Sjálfur segist Sigurður Helgi nánast ofsóttur.

„Það kom til dæmis maður til mín fyrir einu ári og gaf mér þetta belti, ókunnugur maður, Þetta er belti með grafinni skötu á og er búið til úr sköturoði. Og ég spurði: Hvers vegna ert þú að gefa mér þetta? Hann sagði: Bara það er gott að hugsa til þess að þú sért umvafinn skötu,“ segir SIgurður Helgi Guðjónsson.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV