Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ekki tilefni til breyttrar afstöðu Íslands

01.08.2015 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður utanríkismálanefndar Alþingis telur ekki rétt að breyta aðkomu Íslands að viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi, til að forðast innflutningsbann. Fiskútflytjendur eru uggandi vegna stöðunnar. Málið verður tekið fyrir á fundi utanríkismálanefndar í næstu viku.

Ísland hefur enn ekki verið sett á bannlista Rússa, þrátt fyrir að fjölmiðlafulltrúi Pútíns hafi sagt það koma til greina, eftir að Evrópusambandið framlengdi viðskiptaþvinganir gegn Rússum í vikunni. Ísland hefur frá upphafi stutt þær viðskiptaþvinganir. „Ísland tók þá ákvörðun strax snemma á síðasta ári að taka þátt í þeim aðgerðum sem bæði samstarfsríki okkar á evrópska efnahagssvæðinu og í Norður-Ameríku hafa gripið til vegna innlimunar Krímskaga og afskipta Rússa af málefnum Úkraínu,“ segir Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að Ísland eigi að hætta að styðja viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins, til að komast hjá innflutningsbanni. Miklir efnahagslegir hagsmunir séu í húfi.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokks, vill ekki taka afstöðu að svo komnu máli, en segist hafa haft efasemdir frá upphafi um að Ísland taki þátt í þessum aðgerðum. Ísland eigi að vera hlutlaust í svona málum, en ekki taka upp utanríkisstefnu Evrópusambandsins.  

Birgir telur ekki tilefni til að Ísland dragi stuðning sinn til baka. „Nei. Því miður þá hafa ekki orðið nein þau tíðindi í málefnum Úkraínu sem gefa tilefni til að við breytum þeirri afstöðu, og því miður þá hafa forsendur ekki breyst þannig að það sé tilefni til að endurskoða þá ákvörðun.“

Rússar keyptu um tíu prósent af öllum fiski sem fluttur var út í fyrra. Fiskútflytjendur og aðrir í sjávarútvegi sem fréttastofa hefur rætt við hafa miklar áhyggjur af hugsanlegu banni. Þeir merkja breytt viðmót á mörkuðum í Rússlandi og kalla eftir viðbrögðum stjórnvalda.

Sjávarútvegsráðherra hefur ekki svarað spurningum fréttastofu, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir undanfarna daga.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV