Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekki stefnubreyting í málefnum flóttamanna

21.11.2015 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Ákvörðun stjórnvalda í gær að veita fjórtán hælisleitendum alþjóðlega vernd felur ekki í sér stefnubreytingu að mati lögfræðings og talsmanns hælisleitenda. Þetta hafi verið eina niðurstaðan sem var í boði.

 

Einstaklingarnir fjórtán sem fengu alþjóðlega vernd í gær eru frá Sýrlandi og Íran þar af nokkur börn. Kristjana Fenger lögfræðingur hjá Rauða krossi Íslands hefur sinnt málefnum flóttamanna, hún telur ekki að þarna sé um stefnubreytingu að ræða hjá Útlendingastofnun.

„Nei. Þessar birtingar í gær á jákvæðri niðurstöðu Útlendingastofnunar eru ekki að mínu viti stefnubreyting þar sem ákveðið er að birta jákvæðar ákvarðanir um einstaklinga á þessum eina og sama degi. Einstaklinga sem hafa komið hingað seint í sumar og í haust og komist í gegnum landamæraeftirlit og ekki með nein fingraför neins staðar eða slíkt. Ísland er í raun og veru fyrsti staður þar sem sótt er um hæli“, segir Kristjana. 

 

Þar með hafi ekki verið hægt, samkvæmt Dyflinarreglugerðinni, að senda fólkið á síðasta stað. Fjögurra manna fjölskylda sem rætt var við í sjónvarpsfréttum í gær, hafði reyndar gefið sig fram í Ungverjalandi. Kristjana segir að í því tilviki hafi verið um nokkra stefnubreytingu að ræða, en Útlendingastofnun hafi ekki verið stætt á að senda fólkið aftur þangað.

„Þannig að þetta eru mjög borðleggjandi niðurstöður í þessum málum, þannig að ég get ekki séð að þetta sé stefnubreyting hjá Útlendingastofnun,“ segir Kristjana Fenger talsmaður hælisleitenda. 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV