Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki starfslokin sem ég bjóst við

10.10.2019 - 14:29
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Magnús Ólason, fyrrverandi forstöðumaður lækninga á Reykjalundi, segir að uppsögnin hafi komið honum í opna skjöldu. Hann taldi sig vera að fara á fund til að ræða starfsmannamál þegar honum var tilkynnt um starfslok.

Magnús hefur starfað á Reykjalundi nær allan sinn starfsferil, eða um 34 ár. Einungis nokkrar vikur voru þangað til hann átti að fara á eftirlaun þegar honum var fyrirvaralaust sagt upp störfum. „Ég byrjaði á Reykjalundi fljótlega eftir að ég kláraði sérnám og er búinn að helga mig þessum stað nærri allan minn starfsferil. Ég taldi að ég væri að fara á fund til að fara yfir starfsmannamálin því það var búið að vera nokkur órói eftir að forstjóranum var sagt upp um síðustu mánaðarmót,“ segir Magnús. Uppsögnin hafi því komið honum mjög á óvart og viðurkennir hann að hann hafi séð starfslokin öðruvísi fyrir sér.

Magnús segist engar haldbærar skýringar hafa fengið á uppsögninni aðrar en að um skipulagsbreytingar hafi verið að ræða. Hann hafi spurt hvort hann hafi gert eitthvað af sér í starfi en fengið þau svör að svo væri ekki.

Mikil reiði ríkir meðal starfsmanna Reykjalundar vegna uppsagnar Magnúsar og fyrrum forstjóra, Birgis Gunnarssonar. Sjúklingar voru sendir heim í morgun þar sem starfsfólk treystir sér ekki til að viðhalda starfseminni án starfandi framkvæmdastjóra lækninga.