Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ekki séð falsfrétt sem þessa áður á íslensku

26.09.2018 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Falsfrétt á íslensku um þjóðþekkta Íslendinga sem sagðir eru hafa grætt milljarða á viðskiptum með rafmyntina Bitcoin er komin í umferð á samfélagsmiðlum. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, kveðst ekki hafa séð slíka frétt áður á íslensku. Fréttin sé þó mjög áþekk fréttum á ensku sem hafa verið í dreifingu á undanförnum mánuðum.

Fréttin er birt á slóð miðils sem á að heita Heralded News. Útliti fréttarinnar svipar mjög til útlits frétta á vef Viðskiptablaðsins. Samkvæmt falsfréttinni heitir miðillinn Viðskiptabaðið. Þar er greint frá viðtali sem sagt er hafa verið birt í sjónvarpsþættinum Kastljósi á RÚV. Greint er frá spjalli sem Einar Þorsteinsson þáttastjórnandi er sagður hafa átt við þjóðþekkta karla sem hafi grætt 250 milljarða íslenskra króna á viðskiptum með bitcoin, allir eftir að hafa áður orðið gjaldþrota. Rétt er að taka fram að þau samtöl áttu sér aldrei stað í raunveruleikanum. 

Sé ýtt á hlekk fréttarinnar aftur og aftur birtist mynd og nafn mismunandi viðmælenda, þar á meðal Björgólfs Thors Björgólfssonar, Eggerts Magnússonar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Björgólfs Guðmundssonar og Rúnars Freys Gíslasonar, leikara. Þeir eru sagðir hafa útskýrt í þættinum hve auðvelt sé að græða fúlgur fjár með lítilli fyrirhöfn.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin

Falsfréttir geta með tímanum grafið undan fjölmiðlum

Að sögn Elfu er þetta svikamylla, líkt og Nígeríusvindl, sem margir séu eflaust farnir að þekkja. „Þarna er verið að ginna fólk til að vera í viðskiptum sem ekkert er á bak við. Fólk þarf að passa sig vel á þessu,“ segir hún. Fjölmiðlanefnd hefur að undanförnu lagt áherslu á að fræða almenning um falsfréttir þrátt fyrir að mál sem þessi komi ekki með beinum hætti til kasta nefndarinnar. „Fréttir sem þessar geta með tímanum grafið undan trúverðugleika hefðbundinna fjölmiðla og þessa vegna er þetta mjög bagalegt.“

Ummæli látin líta út fyrir að vera skrifuð af Íslendingum

Falsfréttin er eins og áður segir á íslensku. Elfa segir hana bera með sér að þeir sem stóðu að gerð hennar hafi kynnt sér íslenska fjölmiðlamarkaðinn að einhverju marki. Það megi sjá því að valið hafi verið að gera eftirlíkingu af vef Viðskiptablaðsins. Fyrir neðan fréttina segir að ummæli við fréttina séu rúmlega 116.000 talsins. Hægt er að lesa efstu ummælin og eru þau öll skrifuð á íslensku og nöfn þeirra sem skrifa eru íslensk. Þar er fólk ýmist að dásama þennan möguleika til tekjuöflunar eða að forvitnast. Þegar smellt er á nafn þess sem á að hafa ritað ummæli færist lesandinn á vef Bitcoin-svikamyllunnar. Þar er fólki lofað daglegum gróða upp á að minnsta kosti 120.000 íslenskar krónur. Á tveimur mánuðum á gróðinn að geta orðið að hámarki 110 milljónir íslenskra króna. Eins og áður sagði er fólk varað við svindli sem þessu.