Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki rétt að öllum Downs-fóstrum sé eytt

16.08.2017 - 21:47
Mynd: RÚV / RÚV
Fullyrðingar bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS um að nær öllum fóstrum með Downs-einkenni sé eytt hér á landi, eru ekki réttar. Þetta segir Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarþjónustu Landspítalans. Vísindasiðfræðingur telur þó ástæðu til að endurskoða þá stefnu að skima fyrir Downs.

Umfjöllun CBS um fósturskimanir á Íslandi hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum. Þar er því haldið fram að Downsheilkenninu sé markvisst útrýmt hérlendis með fósturskimunum, og fóstrum með litningagallann sé eytt í nærri 100 prósentum tilfella.

Bandarískir stjórnmálamenn á borð við þingmanninn Ted Cruz og Söruh Palin, fyrrverandi ríkisstjóra Alaska, hafa fordæmt framgöngu Íslendinga, en þau eru bæði andvíg fóstureyðingum.

Villandi umfjöllun

En þótt flestar íslenskar konur láti eyða fóstrum sem greinast með Downs, þá er fullyrðingin í fréttaskýringarþættinum er ekki rétt, að sögn Huldu Hjartardóttur.

„Nei, það er nefnilega þannig að um 85% kvenna segja já við skimum þegar þeim er boðið, og það gerum við að tilmælum landlæknis, að bjóða konum skimun fyrir litningagöllum. 15-20% kvenna afþakka skimunina. Skimunin segir bara til um hvort það eru auknar líkur eða ekki, og ef líkurnar eru auknar eru kannski önnur 15-20% sem afþakka greiningarprófið."

Þannig að það er kannski hægt að segja upplýsingarnar í þættinum hafi verið villandi?

„Já, þær eru dálítið villandi. Það er oft hægt að nota tölur sér í hag, og mér fannst þessi þáttur gera það. Hann afvegaleiddi dálítið sannleikann," segir Hulda.

Ástæða til að staldra við

Engu að síður hefur umfjöllunin vakið heitar umræður hér heima, og sitt sýnist hverjum. 

„Konur hafa fullan rétt á því að taka ákvarðanir, en við þurfum að velta því fyrir okkur líka hvaða valkosti við bjóðum upp á. Fólk fær ekki að velja í dag hvort það eignast stúlkubörn eða drengi," segir Ástríður Stefánsdóttir, vísindasiðfræðingur og læknir.

Hún bendir á að fólk með Downs eigi í dag góða möguleika á að lifa sjálfstæðu og góðu lífi.

„Ég held að við þurfum pínulítið að staldra við og íhuga fósturskimanir og fósturgreiningar almennt. Við komum til með að standa frammi fyrir gríðarlega erfiðum spurningum þarna. Það hefur sýnt sig á síðustu áratugum að leitin að Downs hefur einmitt drifið áfram þessar skimanir og grieningar. Það fór í gang fyrir mörgum áratugum þegar líf fólks með Downs var allt allt öðruvísi en það er í dag. Þannig að það er full ástæða til að endurskoða þetta," segir Ástríður.

Ákvörðunin liggi hjá foreldrunum

Hulda bendir hins vegar á rétt foreldra til að taka upplýsta ákvörðun á meðgöngu: „Ég er ekki viss um það. Ég hef unnið í nokkrum löndum og mér finnst fólk almennt vera á þessari skoðun, að það eigi að hafa rétt á því að vita hvort eitthvað amar að barninu sem það á von á, og það eigi rétt á því að taka afstöðu til þess hvort það eigi að halda áfram með meðgönguna."