Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ekki rétt að merkja fátækt fólk

24.01.2017 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er siðferðislega rangt að merkja fólk fátækt, segir Guðrún Ögmundsdóttir. Hún undrast að til standi að gefa fátækum og heimilislausum á Íslandi pelsa sem merktir hafa verið með bleikum lit og dýraverndunarsamtökin PETA hafa gefið Fjölskylduhjálp Íslands. 

Dýraverndunarsamtökin PETA hafa gefið Fjölskylduhjálp Íslands tvö hundruð pelsa sem á að úthluta heimilislausum Íslendingum. Fulltrúi Peta segir að þetta sé gert til að framleiðslan fari ekki til spillis og nýtist þeim sem þurfa mest á hlýjum flíkum að halda. 

Samtökin fá þúsundir pelsa frá fólki árlega og gefa þá áfram til fátækra um allan heim. Til að koma í veg fyrir endursölu hafa þeir verið merktir með bleikum lit.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, er tengiliður vistheimila. „Mér finnst þetta mál vera þannig að ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar að ég heyrði þetta í gær. Og að þessir pelsar yrðu spreyjaðir svo að allir sæju nú að þetta væri frá þeim og þar með ertu bara búinn að merkja fátækt fólk ef það þiggur þessa vöru.“

„Fyrir neðan allar hellur“

Pelsarnir verða afhentir á miðvikudag í Reykjavík og fimmtudag í Reykjanesbæ, auk þess sem hluti af þeim verður sendur út á land. Guðrún segir þörfina fyrir pelsana vera meiri víða annars staðar í heiminum þar sem þúsundir manna eru raunverulega að frjósa úr kulda. Betra væri að nota pelsana sem ábreiður eða gólfmottur í flóttamannabúðum.

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Að senda þetta hingað til Íslands finnst mér alveg fyrir neðan allar hellur. Og að taka við því með þessari hugmyndafræði er bara ekki í boði, að mínu mati, fyrir svo margra hluta sakir. Mér finnst nú bara núna að þeir sem eru að stýra eins og velferðarkerfinu og slíku eigi að bara að taka sig til og segja stopp og hingað og ekki lengra. Við getum ekki verið að merkja og í rauninni að brennimerkja fólk sem er fátækt á þennan hátt. Það er bara ekki siðferðislega í boði.“

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV